Viðskipti innlent

Ásta nýr sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskólans

Atli Ísleifsson skrifar
Ásta Möller.
Ásta Möller. Mynd/Háskóli Íslands
Ásta Möller hefur verið ráðin nýr sviðsstjóri starfsmannamála Háskóla Íslands frá 1. september 2016.

Í tilkynningu frá skólanum segir að Ásta hafi lokið BSc námi í hjúkrunarfræði 1980 og MPA meistaranámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2006. 

„Hún var forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála hjá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 2010-2014, en hefur síðustu rúm tvö ár starfað á skrifstofu rektors m.a. við stjórnsýsluúttektir á rannsóknastofnunum og stjórnsýslu skólans.

Ásta var alþingismaður og varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 1999-2009. Hún var formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1989-1994 og var kjörin formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999 eftir sameiningu félaga hjúkrunarfræðinga. Hún var jafnframt formaður samninganefnda félaganna á starfstíma sínum.  Ásta hefur ennfremur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu á heilbrigðisstofnunum.  Hún var settur aðjúnkt í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands 1982-1984.

Ásta hefur átt sæti í mörgum nefndum á vegum stjórnvalda í opinberri stefnumótun og setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana á vegum ríkisins. Hún sat í stjórn Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga um árabil m.a. sem formaður stjórnar og hefur átt sæti í stjórn og miðstjórn  BHM,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×