Viðskipti innlent

Ragnar Jónasson semur við Penguin í Bretlandi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ragnar Jónasson.
Ragnar Jónasson. Mynd/Aðsend
Glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson hefur gert tveggja bóka samning við útgáfufélagið Penguin í Bretlandi. Bækurnar sem um ræðir eru Dimma, sem kom út í fyrra og Drunga, sem kemur út í haust. Bækurnar, sem fjalla um lögreglukonuna Huldu, eru upphaf nýrrar seríu Ragnars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjarti.

Bækur Ragnars verða gefnar út hjá forlaginu Michael Joseph hjá Penguin. Maxine Hitchcock , sem verður útgefandi Ragnars hjá Michael Joseph, segir Ragnar hafa orðið á skömmum tíma einn virtasti glæpasagnahöfundur samtímans.

„Nýja serían gefur fyrirheit um jafnvel eitthvað ennþá meira. Persóna Huldu er frábærlega mótuð, eftirminnileg, margbrotin og geðþekk. Við erum sannfærð um að lesendur í Bretlandi og annars staðar munu vilja fylgjast með henni í mörgum bókum,“ segir Maxine.

Ragnar hefur notið mikilla vinsælda í Bretlandi frá því að Snjóblinda, fyrsta bók hans, kom út þar í landi. Hún var valin af Independent sem ein af bestu glæpasögum ársins 2015 og þá fór hún einnig í efsta sætið á Amazon Kindle. Þá var Snjóblinda ein mest selda glæpasagan í Frakklandi í sumar og Náttblinda, önnur bókin í þeirri seríu, var valin besta þýdda glæpasagan í Bretlandi árið 2015. Dimma kemur út hjá Penguin árið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×