Erlent

Finnskur nýnasisti í haldi vegna líkamsárásar sem leiddi til dauða manns

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn sem hefur verið handtekinn er virkur liðsmaður Finnsku andspyrnuhreyfingar, hreyfingar nýnasista í Finnlandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Maðurinn sem hefur verið handtekinn er virkur liðsmaður Finnsku andspyrnuhreyfingar, hreyfingar nýnasista í Finnlandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Lögregla í Helsinki hefur upplýst að hún sé með mann í haldi vegna líkamsárásar sem var gerð á mótmælum nýnasista í finnsku höfuðborginni fyrir rúmri viku.

Fórnarlamb árásarinnar, 28 ára karlmaður, lést nokkru síðar af völdum höfuðáverka. Blætt hafði inn á heila mannsins skömmu eftir að hann var úrskrifaður af sjúkrahúsi, þangað sem hann var fluttur eftir að hafa orðið fyrir árásinni.

Í frétt YLE er haft eftir talsmanni lögreglu að atburðalýsing hafi skýrst nokkuð eftir að hópur manna var yfirheyrður og búið er að fara yfir myndir á öryggismyndavélum.

Maðurinn sem hefur verið handtekinn er virkur liðsmaður Finnsku andspyrnuhreyfingar, hreyfingar nýnasista í Finnlandi. Finnska blaðið Helsingin Sanomat greinir frá því að maðurinn sé fæddur árið 1990 og hafi áður verið dæmdur fyrir fjölda brota.

Lögreglumaðurinn Teemu Kruskopf segist hafa rætt við fórnarlambið á sjúkrahúsinu eftir árásina þar sem maðurinn sagðist hafa hrækt í áttina að hópi mótmælenda fyrir utan aðallestarstöð borgarinnar þar sem þeir höfðu safnast saman.

Kruskopf segir að fórnarlambið hafi sagt að til orðaskipta hafi komið áður en hann hélt á brott. Á þá einn mótmælenda að hafa hlaupið á eftir manninum, sparkað í bringu hans svo hann féll um koll og sló höfuðið í stéttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×