Erlent

Leikkonan sem lék Liesl von Trapp er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Charmian Carr hóf rekstur á eigin fyrirtæki á sviði innanhússhönnunar í Kaliforníu eftir að stuttum kvikmyndaferli lauk.
Charmian Carr hóf rekstur á eigin fyrirtæki á sviði innanhússhönnunar í Kaliforníu eftir að stuttum kvikmyndaferli lauk. Vísir/Getty
Bandaríska leikkonan Charmian Carr, sem fór með hlutverk Liesl von Trapp í kvikmyndinni The Sound of Music, er látin, 73 ára að aldri.

Talsmaður leikkonunnar segir Carr hafa andast í Los Angeles af völdum heilabilunar.

Í kvikmyndinni The Sound of Music söng Carr meðal annars lagið Sixteen Going on Seventeen.

Eftir að hafa sagt skilið við leiklistina hóf Carr rekstur á eigin fyrirtæki á sviði innanhússhönnunar í Kaliforníu.

Í frétt BBC kemur fram að móðir Carr hafi á sínum tíma skráð dóttur sína í áheyrnarprufur fyrir hlutverk Liesl, elstu dóttur Georgs von Trapp, þrátt fyrir að hún hafi aldrei farið í söng- eða leiklistartíma.

Carr skrifaði síðar tvær bækur þar sem hún segir frá Sound of Music-ævintýri sínu, Forever Liesl og Letters to Liesl.

Auk hlutverksins í The Sound of Music var eina kvikmyndahlutverk hennar í sjónvarpssöngleik Stephen Sondheim, Evening Promise.

Kym Karath, sem fór með hlutverk Gretl í The Sound of Music minntist Carr á Twitter-síðu sinni og sagði hana hafa verið sem systir sín allar götur frá upptökum myndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×