Lífið

Vill verða hönnuður og fimleikastjarna

Linda Ýr Guðrúnardóttir æfir fimleika í Ármanni og dans í World Class.  Fréttabladid/Vilhelm
Linda Ýr Guðrúnardóttir æfir fimleika í Ármanni og dans í World Class. Fréttabladid/Vilhelm
Hún Linda Ýr Guðrúnardóttir, níu ára, elskar að hreyfa sig og fer á hverjum degi í fimleika eftir skólann. En byrjum á að forvitnast um hvað skólinn hennar heitir. Skólinn minn heitir Hlíðaskóli, af því að hann er í Hlíðunum. Hvernig gengur þér að vakna á morgnana? Mér gengur bara vel held ég því ég þarf að fara snemma í skólann og ég er með allt tilbúið. Hvað gerir þú helst eftir skóla? Ég fer alla daga á fimleikaæfingu í Ármanni, og svo fer ég líka í dans tvisvar í viku í World Class. Ég fer oft í sund og svo leik ég mér með vinkonum mínum. Hvað er svona heillandi við fimleika? Það er svo margt skemmtilegt, til dæmis trampolín, slá, tvíslá, gólf og stökk, það er eiginlega allt skemmtilegt við fimleika. Áttu marga vini í fimleikunum? Já, Kári bekkjarbróðir minn og ég förum stundum samferða og við stelpurnar í hópnum erum allar góðar vinkonur. Stundum getum við leikið saman eftir fimleikana. Hvað annað finnst þér skemmtilegt að gera? Nú dansa, og fara til útlanda og í tívolí. Svo finnst mér líka ótrúlega skemmtilegt að fara í trampolíngarð, þar sem er fullt af trampolínum saman. Áttu þér einhverja fyrirmynd sem þig langar að líkjast? Já, ég á fullt af fyrirmyndum, í fimleikunum finnst mér Simone Biles flott. Svo finnst mér Stella danskennarinn minn mjög flott. Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór? Ég vil verða hönnuður, því mér finnst svo gaman að föndra og teikna föt svo ætla ég líka að vera fimleikastjarna og kannski blaðamaður eða rithöfundur, út af því að mér finnst það mjög spennandi. Svo ætla ég auðvita að vera góð mamma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×