Viðskipti innlent

Íslendingar bóka stærri hótel og dvelja lengur erlendis

Sæunn Gísladóttir skrifar
Borgin sem flestir Íslendingar bókuðu hótel í síðastliðinn ágústmánuð var Tenerife.
Borgin sem flestir Íslendingar bókuðu hótel í síðastliðinn ágústmánuð var Tenerife.
Vinsældir ferðalaga innanlands virðast dragast saman og eru Íslendingar að bóka stærri hótel og dvelja lengur erlendis. Þetta kemur fram í samantakt Dohop um hótelbókanir Íslendinga í síðasta mánuði.

Stærri hótel vinsælli

Næstum tvöfalt fleiri bókuðu gistingu á svokölluðum “Resort” hótelum nú en í ágúst í fyrra.

Resort hótel eru yfirleitt stærri og þar á allt á að vera til alls; matur og skemmtun og margir eyða öllu fríinu á sjálfu hótelinu, sem oft liggur þá að strönd. Sérstaklega virðast stærri hótel á Kanaríeyjum vinsæl þetta árið. Fleiri leita að gistinu utan hinna hefðbundnu hótela, eins og hostel og íbúða en mun færri velja mótel.

Fólk bókar með meiri fyrirvara nú en í fyrra

Svo virðist sem Íslendingar sem hyggjast fara í frí séu að skipuleggja fyrirhugað ferðalag betur. Ef skoðað er með hversu margra daga fyrirvara Íslendingar bókuðu hótel í ágústmánuði í fyrra sést að flestir bókuðu með 47 daga fyrirvara. Í ár virðist fólk vera að skipuleggja fríið aðeins betur, en nú er meðalfyrirvari bókunar 50 dagar.

Fólk gistir lengur á hótelunum

Meðallengd dvalar á þeim hótelum sem bókuð voru á Dohop í nýliðnum ágústmánuði er tæpir fjórir dagar. Það er um 20% lengri dvöl en á sama tíma í fyrra þegar meðallengd dvalar var rúmir 3 dagar.

Það virðist því vera að Íslendingar stefni á að fara í lengra frí en á sama tíma í fyrra. ogamfara þessu er töluvert minna um fólk sé að bóka hótel í eina nótt.

Tenerife vinsælust

Borgin sem flestir Íslendingar bókuðu hótel í síðastliðinn ágústmánuð var Tenerife. Í fyrra var Kaupmannahöfn vinsælust. Tenerife var sjötta vinsælasta borgin í fyrra og vinsældirnar því að aukast.

Ekki eru miklar breytingar á því hvaða borgir eru vinsælastar, en átta af tíu vinsælustu borgum ágústmánaðar í fyrra eru enn meðal tíu vinsælustu borga þetta árið.

Hótel á Íslandi falla í vinsældum með Íslendinga

Annað áhugavert sem sést þegar upplýsingar um þær borgir sem flestir íslendingar bóka hótel í eru skoðaðar er að Akureyri og Reykjavík falla mikið í vinsældum milli ára.

Reykjavík, sem var í 4. sæti í fyrra dettur niður í það 7. Akureyri, sem var tíundi vinsælasti áfangastaður Íslendinga í fyrra fellur nú niður í 24. sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×