Tæknirisinn Apple segir nýja sjallsíma fyrirtækisins, iPhone 7 Plus hafa selst upp í forpöntunum. Sala símans í verslunum hefst á morgun, en viðskiptavinir muni ekki geta gengið út með nýjan síma. Þeir munu einungis geta pantað sér nýtt tæki.
iPhone 7 Plus er stærri en hefðbundinn snjallsími fyrirtækisins og búinn betri myndavél en þeir minni. Útgáfa hefðbundins iPhone 7 í svörtum lit er einnig uppseldur.
Sjá einnig: Klúður Samsung er himnasending Apple
Apple mun ekki gefa út sölutölur eftir fyrstu vikuna eins og þeir hafa gert hingað til. Fyrirtækið segir þær tölur ekki vera til marks um eftirspurn heldur endurspegli þær nánast eingöngu framboð. Það er hve marga síma fyrirtækið hefur framleitt.
Sjá einnig: Ekkert óvænt kom fram á kynningu Apple
Greinendur sem Reuters ræddi við segja útlitið vera bjart fyrir Apple. Eftirspurn eftir símunum sé mjög mikil. Stærri útgáfa iPhone hefur alltaf selst upp frá því að fyrirtækið kynnti fyrsta símann árið 2014.
