Viðskipti innlent

Jóhann Steinar nýr framkvæmdastjóri ÍV sjóða

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Steinar Jóhannsson.
Jóhann Steinar Jóhannsson. Mynd/Auðunn Níelsson
Jóhann Steinar Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf.

Hann tekur við starfinu af Jóni Helga Péturssyni sem tekur við starfi forstöðumanns rekstrarsviðs Íslenskra verðbréfa, móðurfélags ÍV sjóða.

Í tilkynningu segir að Jóhann Steinar hafi víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði, en undanfarin fjögur ár hafi hann starfað við eignastýringu hjá Stapa lífeyrissjóði. Á árunum 2008 til 2011 starfaði hann við fjárfestingar og viðskiptaþróun hjá Tryggingamiðstöðinni og þar áður í markaðsviðskiptum, áhættu- og fjárstýringu hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka.

Jóhann Steinar er með MSc gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Kolbeinn Friðriksson, formaður stjórnar ÍV sjóða, segir það vera mikinn styrk fyrir ÍV sjóði að fá Jóhann Steinar til að leiða fyrirtækið. „Sú gerjun sem nú á sér stað á íslenskum fjármálamarkaði og þróttmikill vöxtur efnahagslífsins skapar mikil tækifæri fyrir félag á borð við ÍV sjóði til frekari vaxtar. Stjórn félagsins vill þakka Jóni Helga fyrir vel unnin störf undanfarin 12 ár og koma á framfæri óskum um velfarnað í nýju starfi.“ 

ÍV sjóðir hf. var stofnað árið 2001 og er dótturfélag Íslenskra verðbréfa hf. með höfuðstöðvar á Akureyri. „Félagið er í dag með stærri rekstrarfélögum verðbréfa- og fjárfestingasjóða landsins, með um 40 milljarða króna í stýringu. Félagið rekur 11 verðbréfa- og fjárfestingasjóði.  Sjóðaframboð ÍV sjóða nær til allra helstu tegunda fjármálagerninga sem almennum fjárfestum standa til boða. Hlutverk ÍV sjóða er að ávaxta fjármuni sjóðfélaga með sem bestum hætti með tilliti til áhættu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×