Viðskipti innlent

Samið um stuðning við eflingu og uppbyggingu náms í fisktækni úti á landi

Atli Ísleifsson skrifar
Um hundrað nemendur eru í dag skráðir í grunnámi fisktækna og um sextíu hafa lokið námi á brautinni.
Um hundrað nemendur eru í dag skráðir í grunnámi fisktækna og um sextíu hafa lokið námi á brautinni. Vísir/Getty
Fisktækniskóli Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið undirrituðu í síðustu viku samstarfssamning um áframhaldandi stuðning við eflingu og uppbyggingu náms í fisktækni.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að verkefnið hafi verið styrkt frá árinu 2014. Á þessu ári verður grunnnám í fisktækni í boði á Sauðárkróki , Höfn í Hornafirði og á Dalvík.

Í fréttinni er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að samningurinn sé mikilvægur fyrir áframhaldandi vöxt Fisktækninámsins. „Það er afar ánægjulegt að geta áfram veitt Fisktækniskólanum stuðning til þess að halda áfram sínu mikilvæga starfi og geta breitt boðskapinn út víðar. Þekking starfsmanna er auður fyrirtækja og hefur það sýnt sig að mikil ánægja er með námið bæði hjá nemendum og fyrirtækjum,“ segir Gunnar Bragi.

Meginmarkmið Fisktækniskólans er að vera í samstarfi með öðrum fræðsluaðilum í sjávarbyggðum á Íslandi og bjóða uppá grunnám í fisktækni sem víðast um landið. „Verknám er kennt af heimamönnum en faggreinar eru kenndar á vegum Fisktækniskólans, annaðhvort í staðbundnu námi eða fjarnámi frá Grindavík þar sem höfuðstöðvar skólans eru. Í dag eru um 100 nemendur skráðir í grunnámi Fisktækna og um 60 hafa lokið námi á brautinni,“ segir í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×