Viðskipti innlent

Bílaumboðin mala gull

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagnaður stærstu umboðanna var mun betri á síðasta ári en árið á undan.
Hagnaður stærstu umboðanna var mun betri á síðasta ári en árið á undan. vísir
Afkoma stærstu bílaumboðanna gerbreyttist til hins betra á árinu 2015, samkvæmt ársreikningum sem nýlega voru birtir í ársreikningaskrá.

Greint hefur verið frá vaxandi sölu síðastliðin ár. Til dæmis seldust í fyrra 15.260 fólks- og sendi­bíl­ar á móti 10.340 bílum árið 2014. Söluaukningin nam 47,5 prósentum í fyrra en 32 prósentum árið á undan. Söluaukningin heldur áfram í ár, á fyrstu átta mánuðum ársins nemur söluaukningin 38 prósentum.

Í takt við þetta eykst velta bílaumboðanna verulega. BL er stærsta bílaumboðið og jókst veltan um 3,3 milljarða á síðasta ári, fór úr 13,7 milljörðum í 17 milljarða. Á sama tíma fór rekstrarhagnaður úr tæpum 400 milljónum króna í tæpar ellefu hundruð milljónir.

Efnahagsreikningurinn stækkar líka hjá fyrirtækinu, en eignir fóru úr 3,9 milljörðum króna og urðu 5,5 milljarðar króna í lok árs 2015. Stærstur hluti eignanna eru vörubirgðir, sem nema fjórum milljörðum. Skuldirnar fara úr rúmum 3,4 milljörðum króna í fjóra milljarða.

Bílaumboðin Hekla og Brimborg voru álíka að stærð, miðað við veltu. Salan hjá Heklu fór úr 9,2 milljörðum króna árið 2014 í 13,9 milljarða í fyrra og salan hjá Brimborg fór úr 9,4 milljörðum í 13,1 milljarð. Hagnaður Brimborgar eftir skatta fór úr 62 milljónum í 326 milljónir en hagnaður Heklu fór aftur á móti úr 3,9 milljónum í 619.

Toyota er fjórða stærsta fyrirtækið. Veltan fór úr 7,3 milljörðum árið 2014 í 11 milljarða árið 2015. Hagnaður eftir skatta dregst aftur á móti lítillega saman, fór úr 510 milljónum árið 2014 í 446 milljónir árið 2015. Samdráttur í hagnaði stafar af því að fyrirtækið fékk 453 milljónir í fjármunatekjur árið 2014 en greiddi 98 milljónir í fjármagnsgjöld á nýliðnu ári.

Fram kemur í ársreikningi að ákveðið var að Toyota myndi greiða eigendum sínum 200 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×