Bíó og sjónvarp

Baltasar gerði breytingu á Eiðnum eftir forsýninguna

Birgir Olgeirsson skrifar
Baltasar Kormákur er leikstjóri Eiðsins ásamt því að fara með aðalhlutverk hennar.
Baltasar Kormákur er leikstjóri Eiðsins ásamt því að fara með aðalhlutverk hennar. Vísir
„Mér fannst eftir forsýningu hann ekki bæta neinu við,“ segir leikarinn og leikstjórinn Baltasar Kormákur um endi nýjustu myndar sinnar Eiðsins sem hann breytti eftir forsýningu hennar.

Það var kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, Tómas Valgeirsson, sem vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni. Tómas gaf myndinni þrjár stjörnur í dómi sínum í Fréttablaðinu en tók fram á Facebook-síðu sinni í gær að dómurinn hefði verið skrifaður áður en endinum var breytt.

Þeir sem eiga eftir að sjá Eiðinn er bent á að í þessari grein er fjallað afar lauslega um söguþráð hennar og gæti það hugsanlega spillt fyrir áhorfi þeirra sem ekkert vilja vita áður en þeir sjá hana í bíó. Er þeim því ráðlagt frá því að lesa lengra.

Frá tökum á Eiðnum.Mynd/Lilja Jónsdóttir
Tómas bendir á að á forsýningunni hafi verið sýnd önnur útgáfa af myndinni. „Sem bauð upp á (alveg hryllilegan...) eftirmála í sögunni,“ skrifar Tómas.

Hann segir að í almennum sýningum sé víst búið að fjarlægja eftirmálan algjörlega. „Hefði ég séð 'réttu' útgáfuna fyrr er hugsanlegt að einkunnin hefði slefað í hálfa í viðbót,“ segir Tómas sem finnst þetta sérstakt.

Baltasar Kormákur segir hins vegar í samtali við Vísi ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag. „Ég ákvað að gera þessa breytingu eftir að hafa séð myndina í fyrsta skipti með áhorfendum. Vegna smæðar íslenska markaðarins þá er ekki hægt að skoða myndir með fullum sal af áhorfendum líkt og oft gert er erlendis,“ segir Baltasar en eftir að hafa horft á myndina með áhorfendum fannst honum eftirmálinn ekki bæta neinu við myndina og jafnvel kalla á fleiri spurningar en hann svaraði.

„Og því ákvað ég að stytta hann lítillega, ekkert stór mál,“ segir Baltasar og segir ekkert athugavert við það að reyna að bæta myndina ef kostur er á því.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.