Lífið

Orðin sterkari eftir áföllin: Snjóflóð, sjóskaði og leyndarmál heimilisins

Snærós Sindradóttir skrifar
Vigdís Erlingsdóttir
Vigdís Erlingsdóttir Vísir/GVA
Í Fréttablaðinu í dag má finna einlæga frásögn Vigdísar Erlingsdóttur af því þegar hún ættleiddi frá sér nýfædda dóttur sína, fyrir 25 árum síðan. Fleiri áföll og erfiðleikar hafa dunið á hjá Vigdísi síðan þá en hún stendur uppi sterkari fyrir vikið með heilmikla reynslu í pokahorninu. Hér segir Vigdís frá snjóflóðinu sem féll á heimabæ hennar Flateyri árið 1995, sjóskaða fyrir vestan og því þegar dóttir Vigdísar, greindi frá kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpföður síns.

Ég veiktist mjög skyndilega í desember ári eftir að ég ættleiddi stúlkuna mína. Það sprakk æðagúlpur í höfðinu á mér og það þurfti að senda mig með sjúkraflugi suður. Það var mér til lífs að vera ekki ein heima þetta kvöld en ég var byrjuð að hitta manninn minn þáverandi, þó enginn hafi vitað það þá. Það muna margir Flateyringar eftir þessari nótt því það hjálpuðust allir að við að koma mér út í bíl og moka flugbrautina í bandvitlausu veðri. Hörður flugmaður hjá Erni talaði um þetta sem eitt af sínum verstu sjúkraflugum.“

Æðagúlpurinn var fæðingargalli sem Vigdís vissi ekki af. Það þótti mikil heppni að hann fannst á meðan hún var þetta ung, aðeins 22 ára gömul.

„Um nóttina fæ ég krampa og flog. Ég varð bara alveg fárveik. Þegar ég gekk út af spítalanum spurði ég lækninn hvort æðagúlpurinn væri ættgengur og hann svaraði: „Viltu virkilega vita ef börnin þín eru með tímasprengju í höfðinu?“

Þegar Vigdís kom heim af spítalanum var nýi kærastinn svo gott sem alfarið kominn á heimilið. „Hann gekk Maju strax í föðurstað,  Maja var þá 3 ára og við eignuðum svo 2 önnur börn saman.

Vigdís ásamt elstu dóttur sinni, Maríu Rut Kristinsdóttur, og barnabarni, Þorgeiri Atla
Undanfari flóðsins 

Vigdís segir að ættleiðing dóttur sinnar frá sér hafi ekki verið áfall en veikindin hafi sannarlega verið það. Við tóku mjög harðir vetrar fyrir vestan sem hafi reynst þorpsbúum erfitt. Í janúar árið 1995 féll svo snjóflóð á Súðavík sem hafi breytt  hugsanagangi fólks. „Við lærðum bara að lifa með þessum hörðu vetrum. Í þessu umhverfi þekktist ekki annað en að sætta sig bara við hlutina. En þegar flóðið féll í Súðavík var það mikið áfall. Við urðum öll skyndilega mjög meðvituð um þetta fallega hvíta.“

Snjóflóðið á Flateyri féll í október þetta sama ár um miðja nótt, skömmu eftir fjögur. Tuttugu manns létu lífið, þar af fjögur börn.

Hús Vigdísar og mannsins hennar var fullt af fólki sem þurfti að leita neðar á eyrina vegna snjóflóðahættu. „Ég var með eins árs gamalt barn á þessum tíma og var þannig séð ekki mikið úti sjálf. En ég man svo vel að vakna korter yfir fjögur um nóttina og koma strákunum [manni sínum, bróður og frænda] út. Við vissum ekkert hvað þeir voru að fara út í. Svo tókum við við þeim aftur um nóttina í algjöru sjokki, þurrkuðum og þerruðum þá, og sendum aftur út, því út urðu þeir að fara.“

Rafmagn sló út og erfitt var að fá upplýsingar um hvað gengi á. Vigdís var á þessum tíma með skífusíma sem var tengdur landlínu og gat því rætt við Einar Odd Kristjánsson, þingmann og frænda sinn, í síma um nóttina. Hann var staddur í Reykjavík og reyndi eftir bestu getu að segja Vigdísi hvað gengi á og yfir hversu stórt svæði flóði hefði farið.

„Hann segir mér að besta vinkona mín sé týnd. Hún hafði farið og gist hjá vinkonu okkar sem var ein heima í óveðrinu. En það hús var ekki á yfirlýstu hættusvæði. Ég sat heima með kertaljós og áttaði mig smátt og smátt á því hversu ofboðslegt þetta flóð var.“

Svo var þetta ekki rætt

„Vegna hættu á fleiri snjóflóðum var fólkið á allri efri eyrinni komið fyrir í húsum neðar á eyrinni sem voru tóm því margir voru að heiman. Sem betur fer voru margir að heiman. Þetta kvöld var kvenfélagsferð, sparisjóðsferð og margir aðrir veðurtepptir.“

Vigdís rak sjoppu á þessum tíma með manninum sínum og fór þangað til að sækja samlokur til að næra mannskapinn í björgunarmiðstöðinni. „Það var enn skafrenningur en samt einhvernveginn bjart fyrir ofan. Þá sá ég flóðið. Í fyrstu gat ég ekki einu sinni skilgreint hvað ég var að horfa á. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni. Svo komu hlaupandi á móti mér björgunarmenn með börur. Ég meðtók ekki einu sinni að það væri neinn í börunum. Seinna var mér sagt að þarna var besta vinkona mín. Henni var bjargað.“

Um kvöldið var komin algjör stilla. „Það var svona eins og lognið á eftir storminum. Við sátum öll saman og horfðum á sjónvarpið og bara grétum. Það var enginn að fela það. Þetta var bara svo þrúgandi sorg. Það fórst einn frændi minn í flóðinu, en maður þekkti allt hitt fólkið sem lést“

Vigdís segir að vinahópurinn hafi verið duglegur við að koma saman og ræða flóðið síendurtekið. „Fólk sem flutti til Flateyrar fljótlega í kjölfarið hefur talað um hvað það var sérstakt að koma inn í hópinn því flóðið var það eina sem við töluðum um. Við töluðum um það aftur og aftur og aftur. En það hjálpaði.“

Hið sama mátti ekki segja um mann Vigdísar sem aldrei ræddi flóðið við hana. Hún segir það lýsandi fyrir ákveðna fjarlægð sem var til staðar á heimilinu. „Þetta var ekkert rætt á milli okkar hjóna. Hann vildi aldrei tala um það sem hann upplifði. Hann upplifði að grafa upp litla stúlku, en svo var hann beðinn að fara á Æsunni inn í Holt og sækja björgunarfólk, svo hann fór ekki meira upp á svæðið. Bróður mínum tókst einu sinni að ræða þetta við hann en það var undir áhrifum áfengis.“

Vigdís ásamt dóttur sinni, Maríu Rut, og unnustu hennar Ingileif FriðriksdótturMynd/úr einkasafni
Allt er þá þrennt er

„Tveggja manna er saknað eftir að kúfiskveiðiskipið Æsa ÍS-87 frá Flateyri sökk í Arnarfirði um hádegisbilið í gær. Fjórir úr sex manna áhöfn skipsins komust um borð í gúmbjörgunarbát og var þeim bjargað um borð í Vigdísi BA-377, sem var nærstödd og sá neyðarljós frá Æsu. Kom Vigdís með mennina til Bíldudals um kl. 14.30. Ágætt veður var þegar Æsa sökk og sléttur sjór“ - Morgunblaðið

Innan við ári síðar, eða í júlí 1996, sökk Æsan. Maður Vigdísar var skipstjóri á Æsunni þá en var ekki með í túrnum. Tengdafaðir hennar fórst í slysinu. „Þarna kom sjokk eftir annað sjokk. Við vorum ekki búin að jafna okkur á flóðinu. Eftir flóðið afþakkaði maður alla áfallahjálp. Ég fór á einn slíkan fund en gekk út aftur. Það átti ekki við mig að sitja og hlusta á einn þruma yfir lýðinn. Þegar Æsan sökk bauðst svo engin slík hjálp,“ segir Vigdís.

„Það var góður maður sem sagði við mig eftir að Æsan sökk „Þú veist Vigga mín að allt er þá þrennt er.“ Hann átti svo eftir að hafa rétt fyrir sér. Haustið 1996 brann sjoppan okkar.“

Og enn einu sinni hélt lífið áfram. „Þegar ég lít til baka vil ég meina að öll þessi áföll hafi styrkt mig. Ég hef haft kjarkinn, duginn og þorið í að láta þetta ekki stoppa mig. Kjarninn í mér er byggður þannig að ég horfi fram á áfall, tekst á við það og held áfram. Það hefur svona verið mitt lífsmottó.“

Tíu árum síðar

Dóttir Vigdísar er María Rut Kristinsdóttir sem hefur vakið athygli fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi og opinskáa umræðu um slíkt ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku. María hefur verið einn skipuleggjenda Druslugöngunnar undanfarin ár og starfar nú í innanríkisráðuneytinu við að gera aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins.

„Í janúar 2007 kemur Maja mín óvænt heim seint um kvöld. Maðurinn minn var úti á sjó en ég átti ekkert von á Maju þetta kvöld því hún bjó á Ísafirði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé vín á henni og hún talaði mikið um að hún þyrfti að segja mér svolítið. Aftur og aftur sagðist hún verða að segja mér svolítið en hún bara gæti það ekki. Ég ákvað að strjúka henni aðeins og koma upp í rúm að sofa, hún gæti sagt mér þetta á morgun.“

Á þessu tímabili var vont ástand á heimilinu. „Okkur leið bara ekkert vel saman á þessu tímabili. Ég var meðvirkasta manneskja í heimi, dóttir alkóhólista og búandi með alkóhólista. Það var drukkið á heimilinu og ég tók þátt í því. Ég skal alveg vera hreinskilin með það. Ég hef gert fullt af mistökum um ævina og drykkja var eitt af því. Ég var búin að reyna allt, að drekka með honum, að neita að drekka með honum, að hella mér yfir hann og allt hvaðeina.“

Vigdís vaknar um morguninn með börnunum sínum, maðurinn hennar enn á sjónum, og vekur Maríu og biður hana að segja sér hvað henni hafi legið svo á hjarta.

„Hún segir mér það sem uppeldisfaðir hennar hafði gert sér. Ég sat þarna og var í smá stund að meðtaka það. En ég trúði henni strax. Ég man ekki hvar krakkarnir voru á þessum tímapunkti en við vorum bara tvær inni í herbergi drjúglanga stund. Ég hafði ekki haft hugmynd um hvað hvað átti sér stað á heimilinu en þær sjálfsásakanir komu seinna hjá mér. Af hverju sá ég þetta ekki?“

Vigdís ásamt börnum sínum þremurMynd/úr einkasafni
Stíflan brestur

Vigdís og María ákveða í sameiningu að nokkrum dögum síðar fari María til Stígamóta og leiti ráða um næstu skref og hvernig beri að tækla þetta. Þær taka ákvörðun um að láta eins og ekkert hafi í skorist gagnvart fjölskylduföðurnum.

„Hún fer á Ísafjörð og ég tek á móti manninum mínum af sjónum. Hjálpa honum með línubalana , eins og ekkert sé eðlilegra. Ég sef við hliðina á honum um nóttina og geri allt eins og ég er vön að gera. Við héldum að þetta væri það besta sem hægt væri að gera því það er enginn leiðarvísir til. Svo kemur mánudagsmorgunn  krakkarnir fara í skólann og ég í vinnu, en ég hringi í Maju um ellefu og segi að ég gefist upp. Ég gat ekki klárað einn dag í viðbót án þess að segja neitt.“

Vigdís biður manninn sinn að hitta sig og spyr hann strax hvort ásakanirnar séu réttar. „Hann horfði í augun á mér og sagði „Já. Ég er búinn að bíða eftir því að þetta komi fram.“ Hann  viðurkenndi þetta strax. Hann brotnaði  alveg niður og bauðst til að gera allt til að bæta fyrir þetta. Bara bókstaflega allt. En svo spyr hann mig hvort þetta breyti nokkru okkar á milli. Ég hélt nú það. Það var ekki fræðilegur möguleiki að ég myndi vilja búa með manninum áfram.“

Eiginmaðurinn pakkaði niður og  fór suður daginn eftir og Vigdís hefur lítið heyrt í honum síðan þá. Hún segist í fyrstu hafa latt dóttur sína til að kæra málið. „Það voru mistök af minni hálfu. Ég vissi bara ekki betur. Ég hugsaði um að halda heimilinu saman, leita ráða um hvernig ég ætti að útskýra þetta fyrir börnunum okkar sem þarna voru 12 og 7 ára. Mér var ráðlagt að segja ekkert við þau. Ég var ekki sammála því en fylgdi þeim ráðum gagnvart þeim yngri. Og svo þurfti að takast á við samfélagið, vera hreinskilinn og fela ekki neitt. Og já, það töluðu allir um þetta.“

„Síðar var maðurinn kærður af barnaverndaryfirvöldum í samráði við okkur eftir að María hafði sagt frá ofbeldinu í sálfræðiviðtali. Enda er það skylda sálfræðinga að tilkynna slíkt ef barn er ekki orðið 18 ára.Það var erfitt tímabil en við áttum okkur á því núna hversu nauðsynlegt það var. Í kjölfarið var hann ákærður  og eftir 2 ára  bið sýknaður.Hann hafði játað fyrir mér en neitaði fyrir dómi.  Það endaði á því að vera orð á móti orði.“

„Ég var virkilega spurð að því í skýrslutöku hvort ég ætti nærbuxur af honum. Manni sem hafði flutt út  tveim árum áður. Þetta er staðreyndin um það hversu sýrð þessi mál eru oft,“ segir Vigdís.

Eftir að niðurstaðan kom þá tók við hversdagslífið og það reyndist heimilisfólkinu erfitt. „Á ákveðnu tímabili töluðu börnin mín ekki saman og ég var á milli, vissi ekkert hvernig við gætum unnið úr þessu áfalli og hvort við gætum aftur orðið eðlileg fjölskylda.“

Betri tímar

Vigdís tók meðvitaða ákvörðun um að byggja aftur upp fjölskyldu sem var brotin. Hún þurfti að takast á við mikla togstreitu á milli barna sinna og reiði á heimilinu en með mikilli ráðgjöf og aðstoð gengur lífið betur. „Það vill oft gleymast að á bak við hvern þolanda er fjölskylda og á bak við hvern geranda er líka fjölskylda. Í okkar tilfelli var þetta sama fjölskyldan sem gerði allt miklu flóknara.“

„Ég tók þá ákvörðun fyrir tveimur árum að panta tíma í fjölskylduráðgjöf og það hefur gjörsamlega breytt öllu. Afhverju var mér ekki sagt það fyrir sjö árum síðan? Mikið ofboðslega hefði lífið verið auðveldara.“

Hún er gagnrýnin á upplýsingaleysi og skort á ferlum í slíkum málum. Hún hafi staðið ein uppi með börnin að reyna að tryggja vellíðan allra í mjög flóknu fjölskyldumáli. „Þarna kemur aftur þessi kjarni í manni. Maður baular sig bara í gegnum þetta og kemur standandi út á endanum. Þrátt fyrir öll þessi áföll þá er ekkert grátt í mínu lífi í dag, bara gleði og styrkur.“


Tengdar fréttir

Mig langar að vera gott fordæmi

María Rut Kristinsdóttir hafði upplifað ýmislegt þegar hún varð móðir, aðeins átján ára gömul. Fimmtán ára bjó hún ein á Ísafirði og lifði á kakósúpu og fiskibollum og sextán ára svaf hún í hálft ár á dýnu heima hjá Illuga Gunnarssyni. Í dag er hún orðin formaður Stúdentaráðs og dregur sem slíkur hvergi af sér í baráttu gegn Illuga, sem er eins og annar faðir hennar.

Aldrei séð eftir að hafa gefið dóttur sína

Vigdís Erlingsdóttir sá fram á að vera einstæð móðir tveggja barna aðeins 21 árs gömul. Þess í stað tók hún ákvörðun um að gefa ófædda dóttur sína. Á fæðingardeildinni þurfti Vigdís að þola augngotur ljósmæðra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×