Viðskipti innlent

Hæstiréttur sýknaði Sigurjón og Yngva Örn

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurjón Árnason.
Sigurjón Árnason. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur sýknaði í dag þá Sig­ur­jón Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­banka Íslands og Yngva Örn Krist­ins­son, fyrr­ver­andi framkvæmda­stjóri verðbréfa­sviðs bank­ans, af öll­um kröf­um slita­stjórnar bank­ans sem hafði krafið þá um greiðslu á 1,2 millj­örðum auk vaxta.

Slitastjórn sagði þá hafa valdið bankanum fjártjóni með at­höfn­um sín­um eða at­hafna­leysi í tengsl­um við hluta­bréfa­kaup á ár­un­um 2007 til 2008.

Hæstirétt­ur snéri þar með við dómi héraðsdóms sem hafði dæmt Sig­ur­jón og Yngva til að greiða sam­tals 237,7 millj­ón­ir í skaðabæt­ur. Þá dæmdi Hæstiréttur slita­stjórn­ina til að greiða Sig­ur­jóni og Yngva Erni fimm millj­ón­ir króna í máls­kostnað.​

Slitastjórnin reisti skaðabótakröfu sína meðal annars á því að þeir Sigurjón og Yngvi Örn hefðu brotið áhættureglur bankans með því að fara fram úr leyfilegum áhættumörkum vegna viðskiptanna, ekki gert formlega samninga við viðskiptamenn um kaup á hlutabréfunum og að skort hefði tilskilið samþykki yfirmanna bankans.

Í héraðsdómsstefnunni sagði að saknæmi beggja hefði falist „í því að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt [þeir] hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti.“ Þá hefðu þeir „sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög.“

Þeir Sigurjón og Yngvi Örn vísuðu til ákvæðis í ráðningasamningi þeirra frá árinu 2003 sem Hæstiréttur segist ekki geta túlkað á annan veg en þann að þeir hefðu mátt treysta því að þurfa ekki að bæta bankanum tjón, sem þeir kynnu að valda honum í störfum sínum, að því tilskildu að tjónið yrði bætt samkvæmt skilmálum slíkrar tryggingar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×