„Þetta var mjög lág upphæð frá fyrirtæki sem græðir á tá og fingri er mér sagt,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Vísi um málið.
Það er fyrirtækið EA Sports sem framleiðir FIFA 17 en Geir segir fyrirtækið hafa haft samband við KSÍ í ágúst síðastliðnum. Var KSÍ tilkynnt að verið væri að loka leiknum fyrir útgáfu en það væri mikill vilji fyrir því að hafa íslenska karlalandsliðið í honum og koma því inn fyrir lokun. EA Sports sagði þó að fjármagnið sem áætlað var í framleiðslu leiksins væri allt að því uppurið og því ekki hægt að bjóða hátt.
„Við komum með gagntilboð en það var ekki áhugi fyrir því,“ segir Geir Þorsteinsson við Vísi um málið.

Erum við að tala um tugi milljóna?
„Nei, ég held að það hafi verið nærri því að vera um ein milljón,“ segir Geir.
Spurður hvort ekki hefði verið betra að taka þessu tilboði þar sem það hefði geta reynst mikil kynning fyrir íslenska knattspyrnu, og alls óvíst hvort slíkt tækifæri bjóðist aftur svarar Geir:
„Þetta er bara eins og önnur viðskiptatækifæri. Ég er viss um að þeir urðu að meta það sínum megin frá. Íslenska landsliðið vakti athygli um allan heim. Við getum ekki gefið réttindin frá okkur.“
Fjörutíu og sjö karlalandslið eru í leiknum en íslenska karlalandsliðið er í 27. sæti á heimslistanum og komst í átta liða úrslit á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi í sumar eins og frægt er orðið.
Geir segir EA Sports ekki heldur hafa spurst eftir því að fá að nota íslenska kvennalandsliðið í leiknum.
Móðurfélag EA Sports, Electronic Arts, hagnaðist á síðasta ári um 875 milljónir dollara, um hundrað milljarðar íslenskra króna, og er ávallt ofarlega á lista yfir stærstu tölvuleikjaframleiðendur heims.