Lífið

Vímulaus æska í 30 ár

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Frá stofnun Vímulausrar æsku í Háskólabíói fyrir réttum 30 árum þar sem frú Vigdís var meðal annars viðstödd.
Frá stofnun Vímulausrar æsku í Háskólabíói fyrir réttum 30 árum þar sem frú Vigdís var meðal annars viðstödd. Vísir/Vímulaus æska
Þann 20. september árið 1986 voru samtökin Vímulaus æska stofnuð formlega fyrir framan fjölmenni í Háskólabíói þannig að í dag eru samtökin orðin 30 ára. Meðal þeirra sem mættu á athöfnina í Háskólabíói var Vigdís Finnbogadóttir. Fyrsti formaður samtakanna var Bogi Arnar Finnbogason. Samtökin voru stofnuð af foreldrum sem ákváðu að standa saman gegn vímuefnaneyslu ungmenna sem var á þessum tíma vaxandi vandamál allsstaðar í vestrænum heimi. Nokkrum vikum eftir þessa athöfn stóð Bylgjan, sem þarna var nýstofnuð, fyrir söfnun til styrktar samtökunum og þar var rekstur þeirra tryggður.

Guðni Björnsson framkvæmdarstjóriVísir/Vímulaus æska
„Það merkilegasta kannski við þessi samtök er að við stofnuðum Foreldrahús árið 1999 – Vímulaus æska á og rekur Foreldrahús og þar er starfsemi samtakanna í dag. Auk þess má auðvitað telja upp Foreldrasímann sem var stofnaður 1986 og hefur ekki sofnað síðan,“ segir Guðni Björnsson, framkvæmdastjóri Foreldrahúss og Vímulausrar æsku, en Foreldrahús er á Suðurlandsbraut 50 og þar er hægt að hitta ráðgjafa sem veitir foreldrum ráðgjöf og stuðning frá níu til fjögur alla virka daga.

Foreldrasíminn er neyðarsími fyrir foreldra og aðstandendur barna og ungmenna sem hafa lent í vanda vegna vímuefnaneyslu og tengdra erfiðleika. Hjá foreldrasímanum starfa ráðgjafar sem eru tilbúnir að leiðbeina foreldrum barna í vímuefnavanda. Foreldrasíminn er hugsaður sem fyrsta hjálp og staður fyrir foreldra til að fá ráð um hvert næsta skref skuli vera allan sólarhringinn. Foreldrasíminn er styrktur af Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytinu.

„Við munum minnast tímamótanna með ýmsum hætti – í haust verður málþing hjá okkur um foreldra og forvarnir, á sama tímapunkti kemur út afmælisrit samtakanna þar sem verður farið yfir sögu þeirra og starf síðustu þrjátíu ár. Auk þess er í blaðinu viðtal við forseta Íslands og konu hans, þannig að þetta er merkileg útgáfu í tengslum við þetta afmæli. Það var einmitt forseti Íslands á þeim tíma, Vigdís Finnbogadóttir, sem sat með okkur þegar samtökin voru stofnuð. Svona erum við fram að jólum búin að vinna á okkur á nýstárlegan hátt í gegnum samfélagsmiðlana. Þar eru ýmsir leikir og annað sem við höfum notað til að vekja athygli á okkur,“ segir Guðni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×