Viðskipti innlent

Vörumerki Ferðaþjónustu bænda fær nýtt nafn

Atli Ísleifsson skrifar
Merki Hey Iceland.
Merki Hey Iceland. Mynd/Ferðaþjónusta bænda
Vörumerki Ferðaþjónustu bænda hefur nú fengið nýtt nafn, Hey Iceland, og kemur nafnið í stað þess gamla, Icelandic Farm Holidays, sem hefur til þessa verið notað í sölu- og markaðsstarfi erlendis.

Í tilkynningu frá Ferðaþjónustu bænda segir að nýja vörumerkið sé afrakstur viðamikillar stefnumótunar sem hafi átt sér stað undanfarin misseri en lengi hafi verið vísbendingar uppi um að eldra heiti fyrirtækisins „gæfi ekki raunsanna mynd af þeirri fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem fyrirtækið býður upp á.“

Þá segir að „Hey“ sé orð sem vísi til sveita landsins og sögu félagsins sem sé fyrirtækinu mjög mikilvæg, en einnig sé um vinalega, alþjóðlega kveðju að ræða.

Ferðaþjónusta bænda var stofnuð af íslenskum bændum árið 1980, en forsagan nær þó til ársins 1965 þegar Flugfélag Íslands tók að bjóða erlendum ferðamönnum að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi.

„Síðan hefur mikið breyst. Ekki aðeins hefur fjöldi ferðamanna aukist gríðarlega heldur hefur starfsemi ferðaþjónustubænda tekið miklum stakkaskiptum. Sveitabæirnir eru ekki lengur fimm talsins heldur rúmlega 170 og 60% af þeim sinna nú nær eingöngu ferðaþjónustu; selja gistingu og bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir einstaklinga jafnt sem hópa. Með hliðsjón af öllu framansögðu þótti tímabært að endurskoða einnig vörumerki félagsins, gera það einfaldara, alþjóðlegra og betur í takt við starfsemina,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×