Viðskipti innlent

Ekki fleiri uppsagnir á dagskrá

Sæunn Gisladóttir skrifar
Allir viðskiptabankarnir þrír sjá fram á áframhaldandi hagræðingu.
Allir viðskiptabankarnir þrír sjá fram á áframhaldandi hagræðingu.
Engar hópuppsagnir eru fyrirhugaðar hjá Landsbankanum og Íslandsbanka, en á miðvikudag var 46 starfsmönnum Arion banka sagt upp.

Veigamesta ástæða uppsagnanna var sögð sú staðreynd að viðskiptavinir kjósi að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir eins og bankaapp netbanka og hraðbanka í stað útibúaþjónustu.

Afkoma Arion banka og hinna viðskiptabankanna versnaði einnig milli ára á fyrstu sex mánuðum ársins. Heildarhagnaðurinn nam 34 milljörðum króna í ár, samanborið við 42 milljarða króna í fyrra. Hagnaður af reglulegri starfsemi Arion banka dróst saman um fimm milljarða, og hjá Íslandsbanka stóð hann nánast í stað.

Fram kemur í svari frá Íslandsbanka að á árinu hafi stöðugildum hjá bankanum fækkað um tuttugu vegna sameiningar útibúa og hafi þær breytingar að miklu leyti náðst í gegnum starfsmannaveltu. Engar uppsagnir liggi fyrir en ljóst sé að stöðugt sé reynt að hagræða. Í svari Landsbankans kemur fram að 23 færri stöðugildi voru hjá Landsbankanum og dótturfélögum hans eftir fyrstu sex mánuði ársins en um áramót, en fækkunin varð að langstærstum hluta af eðlilegum ástæðum. 

Starfsfólki Arion banka hafði fjölgað um fimmtán á árinu fram að breytingum gærdagsins. Í svari frá bankanum segir að í fyrirtækjarekstri þurfi stöðugt að endurmeta áherslur í starfseminni sem eðlilega þróist og breytist yfir tíma. Það séu ekki frekari hópuppsagnir á döfinni en hins vegar munu áfram verið unnið að því að hagræða í rekstri bankans. Til lengri tíma litið þá mun starfsfólki bankans halda áfram að fækka. Það mun fyrst og fremst gerast í gegnum starfsmannaveltu og svo skipulagsbreytingar, til dæmis vegnar úthýsingar á ákveðnum þáttum starfseminnar sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi bankans. Nokkur slík verkefni séu til skoðunar í dag.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×