Skoðun

Kjóstu bara eins og pabbi

Marinó Örn Ólafsson skrifar
Því hefur lengi verið haldið fram að ungt fólk hafi ekki áhuga á stjórnmálum. Ungt fólk mætir verr á kjörstað en aðrir aldurshópar og virðist oft láta sér málefni líðandi stundar lítið varða. Þessar aðstæður skapa vítahring. Ungt fólk tekur ekki þátt í stjórn landsins eins og aðrir þjóðfélagshópar og hefur þar af leiðandi ekki fulltrúa á þingi eða innan hagsmunasamtaka. Við unga fólkið tökum ekki þátt í lýðræðinu.

Þetta sést vel þegar horft er á stöðuna í dag. Húsnæðismarkaðurinn er handónýtur og ungt fólk sér ekki fram á það að eignast nokkurn tímann húsnæði, og ekki er vænlegra að leigja.  Það stendur til að skerða jöfnunarhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og íslenskir framhaldsskólar berjast í bökkum við að greiða fyrir rafmagn og hita. Við þetta bætast skert framlög til háskólanna á síðustu árum og margt fleira, sem núverandi ríkisstjórn ætlar að sjálfsögðu að bæta úr — strax eftir kosningar.

Nýlegar fréttir um minnkandi kaupmátt ungmenna á síðustu áratugum eru enn eitt áhyggjuefnið. Kaupmáttur sextán til nítján ára einstaklinga hefur dregist saman á síðustu áratugum og kaupmáttur næsta aldurshóps fyrir ofan hlutfallslega lítið aukist miðað við hina eldri, sem hafa upplifað mikla kaupmáttaraukningu. Ungt fólk situr á hakanum og það á sér óvini á ólíklegustu stöðum. Sjálf verkalýðshreyfingin samþykkti í sínum nýjustu kjarasamningum að skerða kjör ungmenna. Átján og nítján ára einstaklingar eru, samkvæmt kjarasamningum, á 95% launum annarra fullorðinna einstaklinga. Þeim er því einfaldlega mismunað innan ramma laganna vegna aldurs.

Það er ljóst að þörf er á breytingum. Ungt fólk þarf að eiga sína fulltrúa á þingi, og til þess að eiga sína fulltrúa þarf að kjósa þá. Við megum ekki gleyma því að lýðræðið er líka fyrir unga fólkið. Því biðla ég til ungs fólks; ekki bara kjósa eins og foreldrar þínir, kynnum okkur málin, látum í okkur heyra og kjósum okkur fulltrúa sem berjast fyrir okkar hagsmunum. Hagsmunir unga fólksins eru hagsmunir framtíðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×