Lífið

Fyrst með fréttirnar

Sigrún les það úr tölfræðigögnum að Íslendingar séu á heildina litið mjög hraustir. Hún á það þó til að halda tölfræðifyrirlestur yfir reykingafólki.
Sigrún les það úr tölfræðigögnum að Íslendingar séu á heildina litið mjög hraustir. Hún á það þó til að halda tölfræðifyrirlestur yfir reykingafólki. MYND/EYÞÓR
Sigrún Helga Lund var fyrsti tölfræðingurinn sem lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Hún á jafnframt tvo Evrópumeistaratitla í uppgjafarglímu. Sigrún vinnur að fjölmörgum rannsóknum sem tengjast læknavísindum og lýðheilsu. Hún segir umsvif rannsókna á þeim sviðum meiri en margir gera sér grein fyrir og að Íslendingar búi vel að góðum heilbrigðisgagnagrunnum.

Sigrún Helga er dósent í tölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum sem er rannsóknareining undir læknadeild Háskóla Íslands. Hún vinnur að hinum ýmsu rannsóknum sem tengjast lýðheilsu og læknavísindum og ólíkt því sem einhverjir gætu haldið segir hún starf tölfræðingsins afar spennandi. „Ég er sú sem fæ rann­sóknar­gögnin fyrst í hendur til að vinna úr þeim niðurstöður. Það er svolítið eins og að vera fyrst með fréttirnar.“

Sigrún segir Miðstöð í lýðheilsuvísindum nýlega hafa tekið á móti öndvegisstyrk til að framkvæma stóra rannsókn á því hvernig streita og áföll hafa áhrif á líf fólks. „Eins erum við að fara af stað með blóðskimunarrannsókn þar sem skimað verður fyrir forstigi krabbameinsins mergæxlis. Það er ein viðamesta vísindarannsókn sem ráðist hefur verið í á Íslandi en markmiðið er að kanna mögulegan ávinning þess að skima fyrir þessu tiltekna forstigi. Öllum sem fæddir eru 1975 eða fyrr er boðið að taka þátt og felst þátttakan í því að samþykkja að næst þegar tekið er blóð í einhverjum tilgangi megi nota hluta sýnisins í rannsóknina,“ útskýrir Sigrún.

Sigrún varð Íslandsmeistari í uppgjafarglímu árið 2012. Hér er hún ásamt Sighvati Magnúsi Helgasyni sem varð Íslandsmeistari í karlaflokki.
Aukin áhersla á fyrirbyggjandi vísindi

Hún segir lækna- og lýðheilsuvísindi í sífelldri þróun og að í dag sé meiri áhersla á fyrirbyggjandi vísindi en áður þegar mesta púðrið fór í að finna lækningu og lausnir eftir að vandamálin voru komin fram. „Í gamla daga dó fólk úr pestum og smitsjúkdómum, síðar hjartasjúkdómum og svo krabbameinum. Í dag eru það helst lífsstílssjúkdómar sem herja á okkur og þó hjartasjúkdómar og krabbamein heyri þar undir er líka um að ræða sykur­sýki, offitu og geðsjúkdóma. Læknavísindin leggja í auknum mæli áherslu á að reyna að koma í veg fyrir að þessir sjúkdómar myndist en flest bendir til að matar­æði, hreyfing, andlegir þættir og skimanir skipti þar sköpum.“

Sigrún segir 25 manns greinast með mergæxli á ári en hundrað sinnum fleiri eru með forstigið. „Við munum reyna að komast að því hvað það er sem gerir það að verkum að sumir þróa með sér krabbamein en aðrir ekki og meðal annars hvort lífsstílsþættir komi þar við sögu.“

Sigrún Helga lauk doktorsprófi í tölfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, fyrst Íslendinga. Doktorsverkefni hennar ber hið þjála heiti: „Margir reitir með sama þreifara á þöktum RNA-tjáningar örflögum.“ „Það var mjög tæknilegt,“ segir hún og skellir upp úr en í dag fæst hún við hluti sem hljóma aðgengilegri – í það minnsta í eyrum blaðamanns. „Ég er að skoða allt milli himins og jarðar. Allt frá bólusetningum barna yfir í krabbamein og áföll.“

Sigrún segir fáa tölfræðinga á Íslandi. „Við búum hins vegar að því að hafa aðgang að stórum og góðum heilbrigðisgagnagrunnum. Við erum því farin að geta gert allt öðruvísi rannsóknir en áður. Í gamla daga var mjög dýrt og tímafrekt að safna saman gögnum en nú erum við komin með ofboðslega mikið af undirliggjandi gögnum sem við getum rannsakað og skoðað hvar samband liggur, fáist til þess samþykki.“

Sigrún nefnir Krabbameinsskrá sem nær aftur til 1955, lyfjagagnagrunna Landspítalans, dánarmeinaskrá og Íslenska erfðagreiningu. „Ég hef til dæmis verið að liðsinna doktorsnema sem hefur verið að rannsaka tengsl ákveðins magalyfs við aukna hættu á að fá krabbamein síðar. Það eru svona tengingar sem við getum gert. Þá er ég að skoða áhrif áfalla eins og barnsmissis á lifun foreldra og sömuleiðis það áfall að greinast með krabbamein. Ekkert af þessu er persónugreinanlegt heldur aðeins verið að skoða línuleg gögn. Í svona rannsóknum þarf heldur engin sýni.“

Mikil umsvif

Sigrún segir mikil umsvif í rannsóknum í heilbrigðis- og læknavísindum á Íslandi og að þau séu meiri en margir geri sér grein fyrir. Útlit er fyrir að þau rannsóknarverkefni sem hún kemur að á þessu ári séu búin að hala inn milljarði í styrki og er langstærstur hluti erlendir styrkir. „Það er ekki síst þessum góðu heilbrigðis­gagnagrunnum okkar að þakka. Við erum mjög vel í stakk búin til að rannsaka íslensku þjóðina. Við erum ekki að týna neinum og vitum um alla sem koma. Menn sjá hag í því að geta nýtt þá þekkingu sem verður til með rannsóknum okkar í víðara samhengi.“

Sigrún hampaði Evrópumeistaratitli í uppgjafarglímu í annað sinn árið 2015. Hún hampaði sama titli í flokki blábeltinga 2013.
Reykingafólk fær tölfræðifyrirlestur

En hvernig er að rýna í svona gögn alla daga. Fyllist þú ekki sjúkdómahræðslu? „Nei, síður en svo. Það er í raun mjög uppbyggilegt að sjá hvað við Íslendingar erum á heildina litið hraust þjóð. Hins vegar geta sum tengsl verið mjög afgerandi og má þar nefna tengsl reykinga og lungnakrabbameins. Vinir mínir og kunningjar geta því lent illa í mér ef þeir hætta sér með mér út á lífið og fara jafnvel út í reyk. Þá vellur upp úr mér tölfræðin og þeim þykir ég eflaust algert skaðræði,“ segir hún og hlær.

En hvernig á fólk að haga lífi sínu samkvæmt tölfræðinni? „Þetta er bara gamla góða tuggan. Að halda sig frá heilsuspillandi efnum og huga vel að matar­æði, svefni, hreyfingu og geðorðunum tíu. Þetta snýst ekki um töfralausnir og megrunarkúra heldur hvernig fólk lifir lífi sínu frá degi til dags.“

Íslands- og Evrópumeistari

Sjálf hefur Sigrún Helga alltaf haft mikla þörf fyrir að hreyfa sig. Hún æfði fótbolta á yngri árum en rambaði svo fyrir tilviljun inn í bardagaklúbbinn Mjölni, rétt að skríða í þrítugt og féll kylliflöt fyrir uppgjafarglímu eða brasilísku jiu jitsu. „Þetta var bara enn ein opna Face­book-spurningin; Hvert ætti ég að fara til að hreyfa mig? Góður vinur minn benti mér á Mjölni og eftir að hafa æft víkingaþrek í mánuð var einhver sem benti mér á að glíman ætti örugglega vel við mig. Ég fór á eina æfingu og þá varð ekki aftur snúið.“

Sigrún Helga landaði skömmu síðar, eða árið 2013, Evrópumeistaratitli í flokki blábeltinga og tveimur árum síðar sama titli í flokki kvenna með fjólublátt belti. „Ég viðurkenni það að ég fór alveg á kaf og æfði þess vegna tvisvar á dag. Það lágu því margir æfingatímar þarna að baki. Sökum anna í starfi hefur glíman þó verið í svolítilli lægð að undanförnu en ég stefni á að bæta úr því hið fyrsta.“

Aðspurð segir Sigrún upp­gjafar­glímu eiga lítið skylt við MMA. Á hinn bóginn gagnast hún þeim sem stunda MMA mjög vel. „Það er ekkert verið að kýla eða sparka og engin þung högg. Það er mikið lagt upp úr gagnkvæmri virðingu fyrir andstæðingnum og þú átt í raun ekki að þurfa að meiða. Þess vegna er þetta kölluð uppgjafarglíma. Þetta er í raun eins og gamnislagur með góðum reglum og við segjum stundum í gríni að þetta sé sport fyrir knúsfíkla enda gengur það mikið út á líkamlega snertingu og traust.“

Bíllaus síðan 2007

Sigrún hreyfir sig sömuleiðis töluvert frá degi til dags enda hjólar hún eða gengur nær allra sinna ferða og segir það gera sér gott á móti löngum skrifstofusetum. Hún stofnaði Samtök um bíllausan lífsstíl árið 2008 og þó hún sé ekki lengur í stjórn stundar hún enn þá bíllausan lífsstíl.

„Ég er ein fárra sem seldu bílinn sinn 2007 og hef ekki séð ástæðu til að kaupa mér nýjan. Ég hjóla og geng allra minna ferða en er líka alveg ófeimin við að taka leigubíl ef svo ber undir. Á sumrin hef ég svo tekið bílaleigubíl ef ég fer út a land. Eldri dóttir mín sem er 12 ára er orðin alveg strætófær og það styttist í að sú yngri, sem er að verða tíu ára, verði það líka, en annars ganga þær og hjóla þangað sem þær þurfa að fara.“

Á sínum tíma reiknaðist Sigrúnu svo til að hún sparaði sér um 800.000 krónur á ári með því að reka ekki bíl. „Miðað við þá verðbólgu sem hefur orðið síðan held ég að það sé alveg óhætt að tvöfalda þá upphæð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×