Þetta verður í 97. skiptið sem friðarverðlaun Nóbels verða veitt, en að þessu sinni hafa 376 tilnefningar borist nefndinni. Það er meira en nokkru sinni.

Sumir hinna tilnefndu þykja afar ólíklegir, eins og til dæmis bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump sem tilnefndur er fyrir „hina öflugu hugmyndafræði sína um að styrkleiki leiði af sér frið“, að því er fullyrt er á fréttavef BBC.
Aðrir þykja koma vel til greina, þar á meðal Frans páfi, afganskar hjólreiðakonur og grískir eyjaskeggjar sem hafa tekið á móti flóttafólki.

Allt þangað til um síðustu helgi þóttu reyndar mestar líkur á því að friðarverðlaunin í ár kæmu í hlut Juans Manuals Santos Kólumbíuforseta og Rodrigo Londonos, leiðtoga FARC-skæruliðahreyfingarinnar, sem undirrituðu nýlega friðarsamning sem átti að binda enda á áratuga langan ófrið í landinu. Íbúar felldu hins vegar þetta samkomulag í þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu helgi, þannig að vart kemur lengur til greina að þeir fái verðlaunin þetta árið.
Líklegir viðtakendur friðarverðlauna Nóbels í ár
Aðstoð við flóttafólk í Rússlandi
Svetlana Gannushkina heitir rússnesk kona sem barist hefur ákaft fyrir réttindum flóttamanna í Rússlandi. Hún hefur talað máli flóttafólks og staðið fyrir því að útvega flóttafólki þar í landi bæði lagalega aðstoð og menntun. Fullvíst þykir að rússnesk stjórnvöld myndu líta á það sem beina ögrun verði hún fyrir valinu þetta árið.

Orkumálaráðherrarnir Ernest Moniz, sem er bandarískur, og Ali Akbar Salehi, sem er íranskur, báru hitann og þungann af samningaviðræðum Írans og Bandaríkjanna um kjarnorkumál. Samningur var gerður í júlí síðastliðnum eftir langar og erfiðar viðræður. Spennan á milli ríkjanna hefur síðan minnkað mjög þótt efasemdaraddir bæði í Bandaríkjunum og Íran vari enn við því að afleiðingarnar geti orðið óþægilegar.
Hvíthjálmarnir í Sýrlandi
Hjálparstarfsmenn í Sýrlandi, oftast kenndir við hvítu hjálmana sem þeir bera, hafa unnið hörðum höndum að því að bjarga fólki úr húsarústum í Sýrlandi á helstu átakasvæðunum þar sem loftárásir dynja linnulaust á fólki. Þeir leggja sig í lífshættu á hverjum degi en halda áfram að koma fólki undir læknishendur eða til ástvina sem geta hlaupið undir bagga.
Fórnarlömbum nauðgana hjálpað
Kvensjúkdómalæknirinn Denis Mukwege hefur hjálpað þúsundum kvenna í Austur-Kongó, sem hafa orðið fyrir nauðgunum eða mátt þola annað kynferðislegt ofbeldi. Með honum hafa starfað tvær konur, Mama Jeanne og Mama Jeannette, sem hafa leitað uppi og hjálpað þolendum kynferðisofbeldis víða um land. Hann hefur áður verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna og hlaut Sakharov-verðlaun Evrópuþingsins fyrir tveimur árum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu