Lífið

Rapparinn Kid Cudi leitar hjálpar vegna þunglyndis og sjálfsvígshugsana

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Scott Mescudi, betur þekktur sem Kid Cudi.
Scott Mescudi, betur þekktur sem Kid Cudi. Vísir/AFP
Rapparinn Scott Mescudi, betur þekktur sem Kid Cudi, hefur ákveðið að leita sér hjálpar vegna þunglyndis og sjálfsvigshugsana. Hann greindi frá þessu í einlægri færslu á Facebook síðu sinni í gær. Þar segist Cudi hafa glímt við kvíða og þunglyndi í mörg ár.

„Ég hef átt erfitt með að finna orðin til að segja það sem ég ætla að deila með ykkur vegna þess að ég finn fyrir skömm. Skömm að vera leiðtogi og hetja fyrir svo marga og játa að ég hef lifað lygi. Það tók mig langan tíma að komast á þann stað að geta tekið þetta skref, en þetta er eitthvað sem ég þarf að gera fyrir sjálfan mig, fjölskyldu mína, bestu vinkonu mína/dóttur mína og ykkur öll, aðdáendur mina,“ segir hann meðal annars í færslu sinni.

Cudi segist stefna á að ljúka meðferð í nóvemberbyrjun þegar hann á að koma fram á hátíðinni Complexcon í Kaliforníu. Hann stefnir einnig á að gefa út nýja plötu sína í þessum mánuði. Mun umboðsteymi hans annast útgáfuna og kynningu á henni. 

Cudi vakti nýlega athygli þegar hann átti í hörðum orðaskiptum við Kanye West og Drake á twitter þar sem hann sagði marga innan tónlistariðnaðarins vera illa við sig og sakaði þá um að semja ekki sína eigin tónlist.

Kanye brást við ummælum Cudi á tónleikum sínum um kvöldið og sagðist sár yfir ummælum Cudi, en Kanye gaf Cudi hans fyrsta plötusamning. Síðan þá hafa Cudi og Kanye grafið stríðsöxina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×