Enski boltinn

Joey Barton ákærður fyrir að veðja á fótboltaleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton.
Joey Barton. Vísir/EPA
Þetta eru ekki góðir dagar fyrir Joey Barton núverandi leikmann Rangers í skosku deildinni og fyrrverandi leikmann Manchester City og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.

Barton átti að koma úr þriggja vikna bann hjá Rangers á mánudaginn kemur en hann hefur nú verið ákærður fyrir að stunda það að veðja á fótboltaleiki sem er stranglega bannað hjá fótboltamönnum í Skotlandi.

Hinn 34 ára gamli Joey Barton hefur verið ákærður af skoska knattspyrnusambandinu fyrir að veðja 44 sinnum á leiki milli 1. júlí og 15. september á þessu ári. BBC segir frá.

Joey Barton fær tíma til 12. október næstkomandi til að bregðast við kærunni og segja sína hlið á málinu en málið verið síðan tekið fyrir 27. október.

Leikmenn. þjálfarar, forráðamenn félaga og dómarar í Skotlandi mega ekki veðja á fótboltaleiki og skiptir þar engu hvort þeir eru spilaðir í Skotlandi eða annarsstaðar í heiminum.

Joey Barton hefur verið duglegur að koma sér í vandræði á sínum ferli og það ætlar seint að þroskast af honum. Hann hjálpaði Burnley að komast upp í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en samdi svo við Rangers í Skotlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×