Innlent

Varað við stormi á höfuðborgarsvæðinu og víðar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu verða 10 til 18 metrar á sekúndu í fyrstu og 13 til 20 undir hádegi.
Á höfuðborgarsvæðinu verða 10 til 18 metrar á sekúndu í fyrstu og 13 til 20 undir hádegi. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við stormi, 13 til 23 metrum á sekúndu undir hádegi, hvassast við suðvesturströndina með vaxandi úrkomu. Þá má reikna með hvössum vindhviðum undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Heldur hægari norðaustanlands og dregur svo úr vindi suðvestanlands í kvöld og nótt. Á höfuðborgarsvæðinu verða 10 til 18 metrar á sekúndu í fyrstu og 13 til 20 undir hádegi.

„Kröpp lægð hreyfist inn á Grænlandshafi í dag og skil hennar nálgast landið. Lægðin veldur suðaustanhvassviðri eða -stormi sunnan- og vestanlands og rigningu. Hann verður þó heldur hægari norðan- og austanlands og þurr að mestu. Næsta sólarhring rignir áfram á Suðausturlandi og má búast við miklu úrkomumagni á þeim slóðum. Hiti er með ágætum og má reikna með allt að 16 stigum á Norðausturlandi þegar best lætur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Fimmtudagur

Suðaustan 10-15 m/s og talsverð rigning S- og V-lands fyrripart dags, en síðan skúrir. Bjarviðri NA-til. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast NA-til.

Föstudagur

Suðaustan 13-18 m/s og dálítil væta syðst, en annars mun hægara og bjart með köflum. Hiti 7 til 12 stig.

Laugardagur og sunnudagur

Ákveðin suðaustlæg átt og vætusamt á S-verðu landinu, en úrkomulítið fyrir norðan. Áfram milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×