Lífið

Hundurinn Neró safnar golfkúlum í stórum stíl

Jakob Bjarnar skrifar
Hundurinn Neró er ötull golfkúlusafnari og finnur þær hvar sem helst, jafnvel í sköflum.
Hundurinn Neró er ötull golfkúlusafnari og finnur þær hvar sem helst, jafnvel í sköflum. visir/vilhelm
Labradorhundurinn Neró er einstakur. Hann finnur og færir eiganda sínum golfkúlur í stórum stíl.

„Ég hef aldrei verðlaunað hann fyrir þetta. Ég nenni ekki að standa í því að fylla húsið af golfkúlum. En, ef ég vildi gæti ég hæglega farið út í einhvern heimilisiðnað; safnað kúlum og selt,“ segir Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari á 365.

Neró er fimm ára gamall, hreinræktaður labrador, fyrsti hundur Vilhelms.

„Mig hefur alltaf langað í hund. Góðan félaga þegar ég er að flækjast um, mynda og svona að hafa einhvern með mér,“ segir Vilhelm sem ekki síst er þekktur fyrir magnaðar landslagsmyndir sínar. „Labrador eru mjög afslappaðir hundar, mjög rólegir. Yfirvegaðir en samt nógu stórir og kraftmiklir til að taka með sér á fjöll. Þeir eru til allt. Já, eða flest.“

Vilhelm og fjölskylda hans búa í Kópavogi. Steinsnar frá golfvelli GKG. Þau fara í göngutúra með Neró, tvisvar á dag og þá liggur leiðin oftar en ekki meðfram vellinum.

Neró var svona tveggja ára þegar hann tók uppá þessu. „Að leita að kúlum og koma með. Þetta er ekkert sem ég kenndi honum. Hann fann einhvern tíma kúlu, gaf hana og það var ógurlega gaman. Fékk einhver viðbrögð á það. Síðan hefur þetta þróast,“ segir Vilhelm.

Vinnufélagi Vilhelms, Gunnar V. Andrésson, er alveg sérlega ánægður með Neró sem sendir honum reglulega golfkúlur.
Neró safnar miklu af kúlum. Á meðfylgjandi mynd má sjá afrakstur eftir fáeina göngutúra; 115 kúlur. „Ég gæti margfaldað það ef ég gæfi honum verðlaun í hvert sinn sem hann finnur golfkúlur. Ég hef ekkert farið á neðri hluta vallarins. Bara þessar níu efstu.“

Vilhelm segir Neró ekki láta neitt stöðva sig í að finna golfkúlur. Hann grefur golfkúlur úr sköflum ef því er að skipta. Einhverju sinni voru þeir á göngu vinirnir í góðri fjarlægð frá golfvellinum. „Hann finnur greinilega lyktina af þeim. Einu sinni hélt ég að hann væri að andskotast í mús, lengst frá golfvellinum, hann var að djöflast og grafa. En, þá fann hann golfkúlu þar. Ég passa vel uppá það að fara aldrei inná völlinn. Og aldrei ef menn eru að spila, en við þræðum þarna meðfram eftir lokun, þegar enginn er að spila.“

Einn er sá öðrum fremur sem kann að meta þessa einstöku hæfileika Nerós en það er vinnufélagi Vilhelms, hinn nafntogaði ljósmyndari Gunnar V. Andrésson sem jafnframt er liðtækur kylfingur. GVA fær oft kúlur, sérstaka sendingu frá Neró og kann vel að meta það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×