Erlent

Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði fóru til Japan

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Friðarverðlaun Nóbels verða tilkynnt síðar í vikunni.
Friðarverðlaun Nóbels verða tilkynnt síðar í vikunni. Vísir/Getty
Japanski frumulíffræðingurinn Yoshinori Oshumi hlaut Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði en sænska Nóbelsnefndin greindi frá þessu á fréttamannafundi í Stokkhólmi í dag. Oshumi hefur gert mikilvægar uppgötvanir á svokölluðu sjálfsáti frumna, eða „autophagy“.

Oshumi, sem er 71 árs gamall, hóf að eigin sögn að rannsaka sjálfsát frumna á sínum tíma vegna þess að fáir höfðu sinnt rannsóknum á þessu „innra úrgangskerfi“ líkamans.

Sjálfsát er líffræðilegt ferli í frumum sem stuðlar að niðurbroti og losun úrgangs þeirra. Vísindamenn telja að möguleiki sé á að hægt sé að nýta ferlið í baráttunni við krabbamein og heilabilun.

Röskun á eðlilegu sjálfsáti frumna er hins vegar talið geta orsakað Parkinson‘s sjúkdóminn, sykursýki 2, krabbamein og ýmsa aldurstengda sjúkdóma.

Handhafar Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði og efnafræði, auk friðarverðlauna Nóbels verða tilkynntir síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×