Innlent

Kæra lagasetningu á Bakkalínur til ESA

Svavar Hávarðsson skrifar
Staðfest hefur verið að ESA mun skoða málið verði lögin sett.
Staðfest hefur verið að ESA mun skoða málið verði lögin sett. vísir/epa
Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Að mati samtakanna væru slík lög brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól eða annan óháðan og sjálfstæðan úrskurðar­aðila. Svo segir í tilkynningu frá Landvernd.

Framkvæmdaleyfi fyrir Bakka­línum, þar með talið umhverfismat frá 2010, eru nú í skoðun hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í fjórum kærumálum samtakanna.

Nefndin stefnir að því að úrskurða í málunum innan tíu daga. Lagasetningin miðar annars vegar að því að afturkalla framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna sem kærð voru og koma þannig í veg fyrir að úrskurðað verði í málinu og hins vegar að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi fyrir línunum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir í tilkynningunni að samtökin séu einnig að kanna möguleikann á því að kvarta til eftirlitsnefndar Árósasamningsins og að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu verði frumvarpið samþykkt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×