Innlent

Öflugustu jarðskjálftahrinu í Kötlu í áratugi lokið

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Öflugustu jarðskjálftahrinu sem komið hefur í Kötlu í áratugi er lokið og búið er að opna aftur veginn að Sólheimajökli. Óvissustig er þó enn í gildi. Jarðeðlisfræðingur segir að bíða verði og sjá hvort einhverjar frekari jarðhræringar verði í Mýrdalsjökli á næstunni.

Vísindamannaráð almannavarna kom saman til fundar í morgun. Þar var jarðskjálftahrinan í Mýrdalsjökli rædd en hrinan hófst á fimmtudaginn í síðustu viku. „Þessi hrina hún virðist vera búin. Nú verður bara að bíða og sjá hvort að eitthvað meira gerist,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Búið er að opna aftur veginn að Sólheimajökli en honum var lokað á föstudaginn vegna jarðskjálftanna í Kötlu. „Vissulega hefur dregið úr virkninni en í stóru myndinni þá er það nú kannski lítill tími sem við erum að horfa á núna. Þannig að það er í gildi enn þá það sem að sagt var með óvissustigið,“ segir Hjálmar Björgvinsson deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

Magnús Tumi segir erfitt að spá hvert framhaldið verður. „Sú þróun sem er búin að vera síðustu mánuðina ef að hún heldur áfram gæti hún alveg endað í eldgosi en við höfum nú sé svona aukningu í virkni áður í nokkur skipti og öll skiptin hefur hún fjarað út áður en gýs og það verður bara að koma í ljós hvernig þetta verður núna,“ segir Magnús Tumi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×