Viðskipti innlent

Eiginfjárstaða fjölskyldna batnaði árið 2015

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rúmur fimmtungur fjölskyldna voru skuldlaus í árslok 2015. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur 5,1 milljón króna eða minna og 90 prósent skuldsettra fjölskyldna skulduðu minna en 30,7 milljónir krón
Rúmur fimmtungur fjölskyldna voru skuldlaus í árslok 2015. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur 5,1 milljón króna eða minna og 90 prósent skuldsettra fjölskyldna skulduðu minna en 30,7 milljónir krón Vísir/Vilhelm
Eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnaði árið 2015. Þetta sýna niðurstöður á eigna- og skuldastöðu einstaklinga samkvæmt skattframtölum sem Hagstofan birtir. Þetta á einkum við um einstæða foreldra en staða eiginfjár í þeim hópi jókst um 50 prósent árið 2015, að því er kemur fram í frétt Hagstofunnar.

Eiginfjárstaða einstaklinga jókst um 17,1 prósent, hjóna án barna um 12,7 prósent og hjóna með börn um 27,5 prósent. Eiginfjárstaða milli ára hækkar mest í aldurshópunum 25-39 ára, úr 55 milljörðum króna í 111 milljarða króna árið 2015.

Alls voru 153.084 fjölskyldur (76 prósent) með jákvæða eiginfjárstöðu í lok árs 2015 sem er 6,9 prósent aukning á milli ára. Fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu voru 45.529 (22 prósent) og hefur fækkað um 11 prósent frá fyrra ári.

Fjöldi fjölskyldna með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkar líkt og undanfarin ár. Árið 2015 voru 7.320 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða 57 prósent færri en árið 2014 og að meðaltali nam neikvæð eiginfjárstaða í fasteign 4,9 milljónum króna.

Eignir einstaklinga  jukust um 8,5 prósent milli ára eða úr 4.416 milljörðum króna í 4.792 milljarða króna. Skuldir einstaklinga námu 1.843 milljörðum króna í árslok 2015 og drógust saman um 2,9 prósent frá fyrra ári. Skuldir allra fjölskyldugerða drógust saman árið 2015. Skuldir hjóna með börn drógust saman um 3,5 prósent og einstæðra foreldra um 2,5 prósent og hjóna án barna um 3,8 prósent og einstaklinga um 1,2 prósent. Íbúðalán námu 1.215 milljörðum króna og drógust saman um 3,0 prósent milli ára. Íbúðalán allra fjölskyldugerða lækkuðu og allra aldurshópa að undanskildum hópunum yngri en 24 ára og 25-29 ára þar sem íbúðalán jukust um 15,4 prósent og 9,4 prósent frá fyrra ári.

Rúmur fimmtungur fjölskyldna voru skuldlaus í árslok 2015. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur 5,1 milljón króna eða minna og 90 prósent skuldsettra fjölskyldna skulduðu minna en 30,7 milljónir króna. Samanlagðar skuldir allra, að frátalinni hæstu skuldatíundinni, voru 1,1 milljarður króna eða 60,6 prósent heildarskulda. Samanlagðar skuldir fjölskyldna sem eru í hæstu skuldatíundinni, námu 726 milljörðum króna og voru rúm 39 prósent af heildarskuldum. Þessar fjölskyldur voru einkum hjón með börn (56 prósent) og hjón með engin börn á framfærslu (24 prósent).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×