Lífið

Vinnuveitendur í Kína banna starfsmönnum að kaupa sér iPhone 7

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Starfsmenn eru ekki ánægðir með hina nýju reglugerð.
Starfsmenn eru ekki ánægðir með hina nýju reglugerð. Vísir/Getty
Starfsmenn fyrirtækisins Nanyang Youngkang Medicine Company í Henan-héraði í Kína eiga yfir höfði sér uppsögn ef þeir kaupa sér iPhone 7. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Fyrirtækið hengdi upp tilkynningu þar sem kom fram að starfsmenn mættu hvorki kaupa sér iPhone 7 né iPhone 7 Plus. „Ef þú brýtur þessa reglu, þá þarftu að fara tafarlaust upp á skrifstofu þar sem þér verður sagt upp,“ stóð í orðsendingunni.

Ástæðan fyrir reglunni er sú að eigendur fyrirtækisins vilja heldur að starfsmenn sínir kaupi innlenda síma í stað þess að styðja við erlenda framleiðslu.

Reglan var innleidd þann 18. september en dagsetningin varð fyrir valinu vegna þess að á þessum degi fyrir 85 árum réðust Japanir inn í norðausturhluta Kína. „18. september er sögulegur dagur. Ekki gleyma niðurlægingunni sem þjóðin upplifði. Við skulum sniðganga erlendar vörur,“ stóð í orðsendingu fyrirtækisins.

Einhverjir starfsmenn fyrirtækisins hafa nú þegar lagt fram kvörtun vegna þess að reglugerðin er talin brjóta í bága við réttindi starfsfólks í Kína. Orðsending fyrirtækisins hefur fengið mikla útbreiðslu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo og vakið upp hörð viðbrögð notenda.

Einn notenda Weibo benti meðal annars á að sniðganga fyrirtækisins á iPhone-símum gæti haft í för með sér skaðleg áhrif á efnahag Kína þar sem símarnir eru framleiddir í verksmiðjum í Kína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×