Skoðun

Köllun til hjúkrunar

Valgerður Fjölnisdóttir skrifar
Af hverju ætti einhver að vilja mennta sig til þessa að sinna starfi þar sem vitað er fyrirfram að vinnuaðstaðan mun sennilega vera slæm, launakjör ekki í samræmi við menntun og andlegt álag er yfir eðlilegum mörkum?

Er það ekki svolítið eins og að hlaupa beint í gin ljónssins? Sennilega.

Hvað er það sem fær nærri 200 manns á hverju ári til þess að velja að læra hjúkrunarfræði ?

Sú staðreynd að hér á landi vantar 800-900 hjúkrunarfræðinga vegur þar líklega ekki þyngst. Ég er nánast viss um að þaðEnginn hjúkrunarfræðinemi bíður þess í ofvæni að fá að starfa í húsnæði Landspítalans með þann tækjakost sem þar er. Staðreyndin er sú að stór hluti þeirra hjúkrunarfræðinga sem útskrifast á næstu árum munu ekki starfa á spítalanum. Sem dæmi þá hafa 20% þeirra sem útskrifuðust árið 2014 starfað sem flugliðar eftir útskrift.

Sú vitund að ganga ávallt að öruggri atvinnu víðast hvar um heim gefur hjúkrunarfræðingum viss forréttindi. Sú vitund að vera eftirsótt, býður upp á að þurfa ekki að láta bjóða sér hvað sem er. Við getum farið annað.

Ástæðurnar eru óteljandi og mjög persónubundnar. Ætli aðalástæða þess að velja hjúkrun sé ekki alltaf sú sama? Við viljum við hlúa að betri heimi, gera gagn.

En á sama tíma og gæði íslensks hjúkrunarfræðináms er meðal þess besta sem boðið er upp á í heiminum, er það sorglegt að ég og bekkjarfélaga mína kvíðum því á vissan hátt að starfa innan heilbrigðiskerfisins í sama landi

Það er eitthvað bogið við þessa stöðu.

Það er eitthvað bogið við það að sitja í kennslustundum um hvernig gott heilbrigðiskerfi á að vera og ræða svo um það við samnemendur í kaffihléum að hafa ekki efni á því að fara til læknis eða að leysa út lyf.

Það er eitthvað bogið við að þurfa að þjálfa sig í því hvernig eigi að róa skjólstæðinga sem hafa áhyggjur af því hvernig eigi að greiða fyrir lífsnauðsynlega aðstoð.

Það er eitthvað bogið við það að fólk þurfi í verstu tilfellum að dvelja svo dögum skiptir á bráðadeild vegna húsnæðisvanda, þegar rannsóknir sýna að dvöl á bráðamóttöku á ekki að vera lengri en 4-6 tímar ef það á ekki að hafa áhrif á afkomu sjúklingsins.

Það er svo margt við heilbrigðiskerfið okkar sem lætur dæmið einfaldlega ekki ganga upp. Því þurfum við að breyta.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×