Enski boltinn

Henderson ekki búinn að gleyma þegar Mourinho eyðilagði titildrauma Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jordan Henderson leiðir Liverpool-liðið inn á Anfield í kvöld.
Jordan Henderson leiðir Liverpool-liðið inn á Anfield í kvöld. vísir/getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, er hálfpartinn í hefndarhug fyrir leikinn gegn Manchester United á Anfield í kvöld en erkifjendurnir mætast í stórleik áttundu umferðar.

Henderson er ekkert reiður út í Manchester United en knattspyrnustjóri þess, José Mourinho, gerði enska landsliðsmanninum og samherjum hans mikinn óleik á Anfield vorið 2014 þegar Liverpool stefndi á fyrsta enska titilinn síðan 1989.

Leikurinn frægi, þar sem Steven Gerrard rann og gaf fyrra markið í 2-0 tapi, situr enn í Henderson sem var meiddur og kvaldist er hann horfði á félaga sína fara langt með að kasta frá sér titlinum.

„Þeir voru skynsamir í þessum leik og þetta var vel lagt upp hjá José. Chelsea-liðið var að spila vel þarna en það hægði á leiknum. Ég horfði á úr stúkunni og það var erfitt,“ segir Henderson.

„Chelsea gerði okkur allt erfitt fyrir í þessum leik og tók sér langan tíma í föst leikatriði, innköst og markspyrnur. Með þessu náðu þeir að gera allt vitlaust í stúkunni og Chelsea nýtti sér allan pirringinn. Á endanum var það Chelsea sem vann leikinn og það hafði mikil áhrif á titilvonir okkar. Ég mun aldrei gleyma þessu,“ segir Jordan Henderson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×