Skoðun

Krónan er vandinn, Evrópa er lausnin

Oddný G. Harðardóttir skrifar
„Þetta verður ákvörðun sem varðar ungt fólk og framtíð þess. Því er nauðsynlegt að upplýsingar um Evrópumál verði ungu fólki aðgengilegar. Opnun Evrópustofu er stórt lýðræðislegt skref. Lýðræðið þrífst jú ekki án upplýsinga. Ég vænti þess að Evrópustofa stuðli að upplýstri og góðri umræðu um þessi mikilvægu mál.“

Ég fór með stutta tölu við opnun Evrópustofu árið 2012 og var þá enn vongóð um að aðildarviðræður við Evrópusambandið myndu skila okkur samningi sem þjóðin gæti kosið um. Þá var ég fjármálaráðherra og von mín sú að ungt fólk á Íslandi myndi sannfærast um, eftir að hafa kynnt sér málið, að framtíðin felur í sér meira samstarf Íslands á alþjóðavísu og stöðugra umhverfi fyrir sífellt flóknara atvinnulíf.

Verðum að lækka vexti

Það eru nefnilega gríðarlegir hagsmunir undir. Við höfum siglt ólgusjó vegna krónunnar, sem leiðir okkur upp í hæstu hæðir og aftur niður í öldudali. Þetta hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækja, heldur líka rekstur heimila sem þurfa að bera kostnaðinn af himinháum vöxtum og verðtryggingu. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki upp evru, myndu vextir lækka, verðtrygging verða úrelt og óþörf. Allt varðar þetta almannahag og framtíð fólks og atvinnulífsins hér á landi.

Það hefur verið reiknað út að með lægri vöxtum sparist um 100 milljarðar króna vegna húsnæðislána, og að ríkið sparaði sér 45 milljarða og fyrirtækin í landinu 65 milljarða. Það er alveg auðséð við gætum nýtt þá 200 milljarða í ýmislegt annað og þarfara en vexti. Hingað til hefur enginn kynnt betri eða öruggari leið til að koma á stöðugleika en að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.

Við eigum að klára samningana við Evrópusambandið því í þeim felast tækifærin fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×