Lífið

Hamborg-Ari Eldjárn heimsótti Bítlaslóðir í Þýskalandi

Kjartan Guðmundsson skrifar
Ari Eldjárn í Hamborg í október 2016.
Ari Eldjárn í Hamborg í október 2016. Mynd/Ari
„Einu sinni fór ég á Abbey Road og þar voru svona hundrað manns, en þessar dyr eru inni í húsasundi og lítil umferð þarna þannig að ég gat smellt af í ró og næði. Ef þetta væri úti á götu væru örugglega þúsund hippar þarna daglega,“ segir Ari Eldjárn grínisti sem komst í feitt á ferðalagi sínu um hafnarborgina Hamborg í Þýskalandi í gær.

Ari er mikill Bítlaaðdáandi og gerði því dálitla pílagrímsferð úr reisunni, heimsótti götuna Reeperbahn í rauða hverfinu í Hamborg og leitaði uppi heimilisfangið þar sem fræg ljósmynd var tekin af John Lennon í upphafi sjöunda áratugarins til að endurskapa myndina með sjálfan sig í Bítilsins stað.

John Lennon í Hamborg í apríl 1961.
Ari var að skemmta á ráðstefnu í borginni, átti lausan tíma og ákvað að finna nokkra Bítlatengda staði sem hann varð að heimsækja, en sem kunnugt er eyddi hljómsveitin fræga nokkrum árum í þessu alræmda hverfi Hamborgar við spilamennsku, sukk og svall í upphafi ferilsins. Hann segir tröppurnar frægu, sem prýddu meðal annars umslagið á sólóplötu Lennons, Rock’n’Roll frá 1975, hafa verið auðfundnar. 

„Ég hef verið mikill Bítlamaður í rúman aldarfjórðung og hef meira að segja gerst svo frægur að hafa hitt og heilsað Paul McCartney með handabandi, sem var vægast sagt stórfurðuleg lífsreynsla,“ segir Ari og bætir aðspurður við að ófáir brandarar sem hverfast um nafn hans og heiti borgarinnar, Hamborg-Ari, hafi fengið að fljúga á meðan hann dvaldi í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×