Innlent

Björn Ingi verður með Eyjuþátt sinn á ÍNN

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Ingi gerir ráð fyrir verulegum breytingum á fjölmiðlamarkaði á næstunni.
Björn Ingi gerir ráð fyrir verulegum breytingum á fjölmiðlamarkaði á næstunni.
Björn Ingi Hrafnsson, einn helsti eigandi Pressunnar ehf ásamt Arnari Ægissyni, boðar frekari tíðindi af vettvangi fjölmiðla á næstunni. Pressan hefur yfirtekið rekstur ÍNN eins og Vísir greindi frá í morgun.

Björn Ingi tjáir sig um það á Facebooksíðu sinni nú í kvöld og segir að fjölmiðlaævintýri þeirra Arnars haldi áfram að vinda uppá sig, nú með samstarfi við goðsögnina í bransanum, sjálfan Ingva Hrafn Jónsson, sem haldið hefur út sinni eigin metnaðarfullu sjónvarpsstöð undanfarin ár af miklum dugnaði, eins og Björn Ingi orðar það.

Hann boðar áframhaldandi uppbyggingu á ÍNN, Ingvi Hrafn verði eftir sem áður með sitt Hrafnaþing á dagskrá og þá greinir Björn Ingi frá því að Eyjuþáttur hans sjálfs, sem hefur verið á dagskrá Stöðvar 2, verði á dagskrá ÍNN. Bryddað verður uppá margvíslegum nýjungum og fastir dagskrárliðir halda áfram.

„Mér finnst heiður að því að Ingvi Hrafn hafi átt frumkvæði að því að leita eftir samstarfi við okkur og vonandi mun ÍNN dafna um ókomin ár. Ég hef áður sagt að starfsskilyrði íslenskra fjölmiðla eru með þeim hætti að litlir aðilar verða að snúa bökum saman og þetta er angi af þeirri þróun. Ég á von á því að frekari tíðindi verði í þeim efnum á næstunni,“ tjáir Björn Ingi vinum sínum á Facebook.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×