Skoðun

Jöfn tækifæri

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Við kjósum á óvenjulegum tíma. Panama-skjölin opnuðu augu margra fyrir misskiptingu í samfélaginu þar sem fámennur hópur hefur nýtt sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma eignir sínar og fjármuni og kosið að spila eftir öðrum leikreglum en allur almenningur.

Misskipting gæðanna er grundvallaratriði í stjórnmálum samtímans. Efnahagsbatinn undanfarin ár hefur sem betur fer skilað því að margir hafa það betra nú en í kjölfar hrunsins. Því miður hefur tækifærið ekki verið nýtt til að tryggja aukinn jöfnuð í samfélaginu heldur hefur áherslan verið á að létta skattbyrðinni af þeim efnameiri. Því miður eru teikn á lofti um að ójöfnuður aukist á ný. Ríkustu tíu prósentin eiga tvo þriðju alls auðs og ríkasta eina prósentið tekur til sín nær helming fjármagnstekna. Þetta er óheillaþróun. Ekki aðeins vegna þess að jöfnuður er réttlætismál heldur líka vegna þess að þeim samfélögum vegnar best þar sem efnahagsleg hagsæld er mest.

Við í Vinstri-grænum höfum að leiðarljósi að það sé hlutverk stjórnmálanna að tryggja öllum jöfn tækifæri.

Jöfn tækifæri þýða að við forgangsröðum því að gera aðgerðaáætlun um loftslagsbreytingar því að við viljum að komandi kynslóðir hafi sömu möguleika og þær sem nú lifa. Umhverfissjónarmið þurfa að vera undirliggjandi við alla ákvarðanatöku hins opinbera og tryggja þannig að hagkerfið verði raunverulega grænt og að við náum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Jöfn tækifæri þýða að það þarf að gera skattkerfið réttlátara og fara í raunverulegt átak gegn skattaundanskotum og skattsvikum. Jöfn tækifæri þýða líka að það á ekki að skipta máli hvort maður er karl eða kona. Það er með öllu óviðunandi að enn tíðkist óútskýrður launamunur, hvort sem er hjá hinu opinbera eða í einkageiranum.

Jöfn tækifæri þýða líka að það þarf að bæta kjör þeirra hópa sem hafa setið eftir, eins og aldraðra og öryrkja, og tryggja að launaþróun þessara hópa fylgi almennri launaþróun. Jöfn tækifæri snúast um að enginn á að þurfa að neita sér um læknisþjónustu og lyf og þess vegna þarf að létta gjaldtöku af sjúklingum í áföngum og forgangsraða á göngudeildum sjúkrahúsanna og heilsugæslunni.

Jöfn tækifæri snúast líka um að allir geti sótt sér menntun. Því miður hafa framhaldsskólar og háskólar setið eftir í fjárveitingum. Við eigum að blása til sóknar í skólamálum og undirbúa okkur þannig undir framtíðina. Áskoranir framtíðarinnar munu kalla á sjálfstæða og skapandi hugsun og þar munu skólarnir skipta höfuðmáli. Þaðan munu spretta enn fleiri sprotar í þekkingariðnaði og nýsköpun.

Við höfum tækifæri á laugardaginn til að hafa áhrif á þróun samfélagsins okkar. Tryggja að langtímahugsun ráði ferð og allar ákvarðanir muni stuðla að auknum jöfnuði, sjálfbærni og réttlæti. Nýtum atkvæðisréttinn og breytum samfélaginu til hins betra.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×