Flestir farþeganna sem voru um borð í rútu sem hafnaði utan vegar á Þingvallavegi í morgun eru kínverskir en ökumaður rútunnar og leiðsögumaður eru íslenskir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en alls voru 41 farþegi í rútunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Páli Matthíassyni forstjóra Landspítalans eru fimm til sjö manns alvarlega slasaðir, fimmtán manns fara til aðhlynningar á heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ og fjórir til viðbótar sem eru nokkuð verr slasaðir fara á Landspítalann í Fossvogi.
Nýjustu tilkynningu lögreglunnar vegna slyssins má sjá hér að neðan:
Rúta með erlenda ferðamenn hafnaði utan vegar við Þingvallaveg, nálægt Skálafellsafleggjaranum, á ellefta tímanum í morgun. Talið er að um 40 farþegar hafi verið um borð í rútunni, auk ökumanns og farþega.
Fjölmennt lið björgunaraðila hélt þegar á vettvang, en strax var ljóst að um alvarlegt slys var að ræða. Slasaðir voru fluttir á Landspítalann, en jafnframt var fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ virkjuð. Aðgerðir á vettvangi standa enn yfir og Þingvallavegur er áfram lokaður.
Lögreglan ítrekar að þeir sem kunna að hafa tekið upp farþega á svæðinu láti vita tafarlaust um slíkt í síma 112. Mjög áríðandi eru þessar upplýsingar komi strax fram svo hægt sé að tryggja að allir sem voru um borð í rútunni séu komnir i leitirnar.
Leiðsögumaður og ökumaður rútunnar eru íslenskir, en meirihluta farþeganna kínverskir.
