Lífið

Örnu Ýri skipað að grenna sig fyrir lokakvöld fegurðarsamkeppni í Las Vegas

Atli Ísleifsson skrifar
"Ég hef engan áhuga á að gera mitt besta upp á sviði þar sem þeir eiga mig ekki skilið,“ segir Arna Ýr á Snapchat.
"Ég hef engan áhuga á að gera mitt besta upp á sviði þar sem þeir eiga mig ekki skilið,“ segir Arna Ýr á Snapchat.
Arna Ýr Jónsdóttir fegurðardrottning segist hafa fengið skilaboð frá eiganda fegurðarkeppni sem hún tekur nú þátt í í Las Vegas, um að hún væri of feit og þyrfti að grenna sig fyrir lokakvöldið.

Arna Ýr greinir frá þessu á samskiptamiðlinum Snapchat en hún undirbýr sig nú fyrir keppnina Miss Grand International 2016 sem fram fer í Las Vegas um helgina og fram á þriðjudag, þegar lokakvöldið fer fram.

Hún segist hafa fengið þau skilaboð um að borða ekki morgunmat, fá sér salat í hádeginu og drekka vatn í kvöldmat. Segist hún hafa fengið þessa beiðni þar sem „eiganda keppninnar líki vel við hana og vilji að hún komist sem lengst“.

„Ef eigandi keppninnar vill í alvörunni að ég létti mig þá á hann ekki skilið að fá mig í topp tíu, topp fimm eða eitthvað,“ segir Arna Ýr.

Arna Ýr, sem valin var Ungfrú Ísland árið 2015, segist ekki taka þetta inn á sig, en að erfitt væri að hafa lagt sig alla fram fram fyrir keppnina og fá svo þessi skilaboð frá aðstandendum hennar.

Hún spyr af hverju hún hafi verið tekin inn í keppnina ef hún væri talin vera of feit. Hún hefði aldrei mætt til leiks ef hún hefði vitað að svo væri.

„Ég hef engan áhuga á að gera mitt besta upp á sviði þar sem þeir eiga mig ekki skilið,“ segir Arna Ýr. „Það eina sem ég get gert er að taka makeup-ið af, setja það aftur á, setja bros á andlitið, fara niður sterk, sýna að ég sé flott eins og ég er,“ segir Arna Ýr.

„Þetta er staðfest síðasta keppnin sem ég tek þátt í. Ég læt ekki bjóða mér upp á þetta aftur,“ segir Arna Ýr að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.