Skoðun

Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Hildur Þórisdóttir skrifar
Það er gott að búa úti á landi, það vita þeir sem það hafa reynt. Þó er öllum ljóst sem búa á landsbyggðinni að samþjöppun stjórnsýslu og þjónustu til suðvesturhornsins hefur verið mikil í gegnum tíðina. Nú er svo komið að þjónusta til dæmis sérfræðilækna er að mestu leyti staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta veldur því að í síauknum mæli þarf landsbyggðarfólk að sækja þjónustu hins opinbera til höfuðborgarinnar sem hefur valdið aðstöðumuni á landsbyggðinni.

Innanlandsflug og verðlag þess er því eitt af hagsmunamálum landsbyggðarinnar.

Um þessar mundir eru rúmlega 8.000 manns aðilar að hópi á fésbókinni þar sem deilt er sögum og upplifunum af dýru innanlandsflugi. Þar er niðurstaðan ætíð sú sama. Verðlagið á innanlandsfluginu er skerðing á lífsgæðum fólks sem kýs að búa á landsbyggðinni en þarf af ýmsum ástæðum að nota innanlandsflugið.

Á þessu þarf að leita lausna í samvinnu við stjórnvöld ef það er raunverulegur vilji til þess að blómlegt mannlíf þrífist á landinu öllu. Innanlandsflugið þarf að komast á þann stað að vera raunverulegur valkostur allra sem samgöngumáti. En fyrst þarf að skilgreina innanlandsflugið sem almenningssamgöngur og vinna síðan út frá því. Ríkið niðurgreiðir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 milljarða króna á ári svo að næsta rökrétta skref ætti að vera að rétta hlut landsbyggðarinnar í þeim efnum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×