Skoðun

Að eignast eða eignast ekki börn, hugleiðing um ófrjósemi

Helga Björg Arnardóttir skrifar
Að eignast eða eignast ekki börn, er spurning sem flestir standa frammi fyrir einhvern tíma á ævinni. Það reynist því miður samt all nokkrum fjölda fólks erfiðara að eignast börnin en að svara spurningunni.

Hvað gerir maður í þeirri stöðu? Jú, maður leitar sér aðstoðar. Ég var ein af þeim.  Ég var búin að tikka í boxið „eignast barn“ í huganum, við hjónin búin að reyna framkvæmdahliðina á því í tvö ár áður en við stóðum fyrir framan Art Medica, tilbúin til að taka næsta skref. Á þeim tíma, eins og nú, var þetta eini valkosturinn hérlendis fyrir mig að fá aðstoð. Gott og vel. Í þeirri eins og hálfs árs samvinnu sem ég átti með Art Medica vann ég stóra lottóvinninginn, til varð barn. Ég var ein af þeim heppnu. 

Að standa í þessum sporum er erfitt fyrir alla viðkomandi. Andlegt álag er mikið þar sem trekk í trekk er maður minntur á að ekki sé þetta að ganga, enginn draumur að rætast í þetta skiptið og fyrir liggi að hefja meðferð aftur. Líkamlegt álag er einnig mikið, hormónakokteilar sem breyta manni í tifandi tímasprengju eina stundina og andlega rúst hina stundina. Svo koma fjárhagsáhyggjurnar. Það er ekkert grín fyrir budduna að standa í þessu.  Það ár sem ég stóð í þessum sporum var verð á glasafrjóvgun hérlendis 294 þús en er núna 455 þús (verð miðast við fyrstu meðferð, sem er ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum). Ái.  Á þessum tíma hafa orðið framfarir á þessum meðferðum, en þetta er engu að síður dýrt. Og þetta er verð fyrir utan lyfjakostnaðinn sem þessu fylgir. 

Það svíður að standa eða hafa staðið í þessum sporum. Það svíður enn meira þegar maður les um það að eina klíníkin sem sinnir þessum málaflokki á landinu hafi tekið 350 milljón króna arð út úr fyrirtækinu á árunum 2013-2015. Þetta er vont. Þessar arðgreiðslur eru hirtar út úr eymd og erfiðleikum fólks sem glímir við ófrjóssemi. Þrátt fyrir að Björt framtíð sé opin fyrir fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisgeiranum, þá finnst okkur þetta ekki í lagi. Björt framtíð leggst eindregið gegn því að heilbrigðisþjónusta sé rekin í gróðaskyni.

Það er val að eignast barn eða ekki. Ef þú hins vegar þarft aðstoð og ert ekki fjársterkur, þá hefur þú ekki það val. Þannig er staðan í dag. Það er vont.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×