Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa tveimur þingmönnum frá kosningunum 2013, en væri með stærsta þingflokkinn. Flokkurinn fengi sautján þingmenn en var með nítján menn eftir síðustu kosningar. Flokkurinn er með 23,7 prósenta fylgi í nýju skoðanakönnuninni. Það er einu prósenti meira en flokkurinn var með í skoðanakönnun fyrir viku þegar hann var með 22,7 prósent. Munurinn er þó innan vikmarka. Píratar eru með 20,7 prósenta fylgi, VG með 19,2 prósenta fylgi, Framsóknarflokkurinn með 8,5 prósenta fylgi, sem er nákvæmlega það sama og hann var með fyrir viku. Þá er Björt framtíð með 7,4 prósenta fylgi, Viðreisn með 6,6 prósenta fylgi og Samfylkingin með 6,5 prósenta fylgi.

Í Ráðhúsinu í Reykjavík starfar meirihluti sem myndaður er af fjórum stjórnmálaöflum; Pírötum, Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Vinstri grænum. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru Píratar nú þegar byrjaðir að ræða samstarf að loknum kosningum við Samfylkinguna og ætla að halda fleiri fundi á næstunni. Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, segir fullsnemmt að segja til um með hverjum verði fundað. „En við höfum verið í samskiptum við VG og Bjarta framtíð,“ segir hann. Hann segist telja að vel hafi gengið í borginni, en það eigi eftir að koma í ljós hvort hið sama geti átt við um Alþingi.
Smári segir Pírata ekki gera kröfu um forsætisráðuneytið í ríkisstjórn eftir næstu kosningar, heldur að málefnin séu efst á dagskrá. „Við erum ekki að leitast eftir forsætisráðherrastólnum,“ segir hann.

Óttarr Proppé, formaður flokksins, sat fyrir svörum í Kosningaspjalli Vísis í gær. Hann sagði að draumaríkisstjórn sín væri frjálslynd miðjuríkisstjórn. Það væri ekkert óeðlilegt að flokkurinn horfði til þeirra flokka sem eru næstir Bjartri framtíð. „Það hafa gjarnan verið Viðreisn til hægri, Samfylking og Píratar til vinstri og yfir til Vinstri grænna,“ sagði Óttarr. Hann nefndi Sjálfstæðisflokkinn ekki í upptalningu sinni.

Hringt var í 1.303 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 17. og 18. október. Svarhlutfallið var 61,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Það er gert í samræmi við aðferðafræði sem þróuð var á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Alls tóku 68,0 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu