Handbolti

Grétar Ari aftur í Hauka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markverðir Hauka, Giedrius Morkunas og Grétar Ari Guðjónsson.
Markverðir Hauka, Giedrius Morkunas og Grétar Ari Guðjónsson. vísir/anton
Grétar Ari Guðjónsson er kominn aftur til Hauka eftir að félagið kallaði á hann úr láni frá Selfyssingum, þar sem hann hefur spilað í upphafi tímabilsins í Olís-deild karla.

Þetta staðfesti Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við íþróttadeild 365 í dag.

Grétar Ari hefur verið lykilmaður með Selfyssingum sem hafa komið á óvart í Olís-deildinni  í haust. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með tíu stig en Haukar eru í því sjöunda með átta.

Giedrius Morkunas hefur verið aðalmarkvörður Hauka undanfarin ár en Einar Ólafur Vilmundarson hefur einnig spilað í marki Haukanna í haust.

Leið ekki vel utan vallar

„Það var Grétar Ari sjálfur sem bað um að fá að fara til Selfoss því hann vildi frá fleiri mínútur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi í dag.

„En það var svo hann sem kom til okkar að fyrra bragði og sagðist vilja koma aftur í Hauka. Honum gekk vel inni á vellinum en utan vallar gekk lífið ekki nógu vel,“ sagði Gunnar enn fremur.

„Þetta er ungur strákur sem var að flytja að heiman í fyrsta skiptið og það gekk ekki nógu vel að búa einn. Þetta snýst því ekkert um Selfyssinga enda allt í toppstandi innan félagsins.“

Ákvörðun stjórnar og Grétars Ara

Gunnar segir að stjórn handknattleiksdeildar hafi ákveðið að kalla hann til baka úr láni, í samráði við Grétar Ara sjálfan. „Við höfum ekki verið nógu ánægðir með markvörsluna eins og hún hefur verið það sem af er tímabili. Það var því ákveðið að það væri best ef hann myndi koma heim.“

Gunnar skilur vel að Selfyssingar eru óánægðir með framvindu mála. En hann gerir ráð fyrir því að Einar Ólafur fari nú til Selfoss.

„Líklegast er að við munum losa hann undan samningi svo að hann geti farið til Selfoss. Við viljum Selfyssingum ekkert illt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×