Handbolti

Stefán Rafn verður ekki með gegn Tékkum og Úkraínu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson er meiddur.
Stefán Rafn Sigurmannsson er meiddur. mynd/álaborg
Stefán Rafn Sigurmannsson, hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, verður ekki með strákunum okkar í landsleikjunum tveimur gegn Tékklandi og Úkraínu í þessari viku sem eru fyrstu leikir liðsins í undankeppni EM 2018. Þetta staðfesti Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, við Vísi í kvöld.

Stefán Rafn var valinn í 21 manns hóp Geirs Sveinssonar fyrir leikina gegn Tékkum og Úkraínumönnum en hann getur ekki tekið þátt vegna meiðsla aftan í læri. Stefán spilar ásamt Arnóri Atlasyni undir stjórn Arons Kristjánssonar hjá Álaborg í Danmörku en Arnór var mættur á æfingu liðsins í Laugardalshöll í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði, og Bjarki Már Elísson, leikmaður Füchse Berlín, munu því manna hornastöðuna vinstra megin í þessum leikjum. Rétt ríflega helmingur hópsins var mættur á æfingu í Laugardalshöll í kvöld en allur 20 manna hópurinn kemur saman á morgun.

Fyrsti leikur strákanna okkar í undankeppni HM 2018 verður gegn sterku liði Tékka í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið klukkan 19.30 en hægt er að kaupa miða á leikinn hér. Íslenska liðið ferðast svo til Úkraínu og mætir heimamönnum ytra á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×