Handbolti

„Ekkert stress þó að Dagur hætti“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson hættir líklega með þýska liðið.
Dagur Sigurðsson hættir líklega með þýska liðið. vísir/afp
Það virðist alltaf líklegra að Dagur Sigurðsson hætti sem landsliðsþjálfari Þýskalands en þýska blaðið Bild sagði frá því í gær að Valsarinn væri búinn að ákveða að yfirgefa þýska liðið og að hann taki við Japan.

Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins, sagði í gær að það væri ekki rétt að Dagur væri búinn að ákveða að taka við japanska landsliðinu. Dagur er ekki enn búinn að gefa út að hann muni hætta með þýska liðið.

Dagur þarf að ákveða sig á næstu vikum. „Það er engin sérstök dagsetning sem við erum með í huga en við viljum vita ákvörðun hans í nóvember. Ég og leikmennirnir vonum allir að hann verði áfram. Það yrði synd ef Dagur verður ekki þjálfari okkar áfram því hann er að standa sig svo vel,“ segir Hanning í viðtali við Handball-World.

Dagur gerði Þýskaland að Evrópumeisturum í janúar og fékk svo brons á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar en íslenski þjálfarinn er í guðatölu í Þýskalandi eftir árangurinn.

„Við munum sakna hans ef að hann hættir en við verðum áfram á meðal bestu liða,“ segir Andreas Wolff, markvörður Kiel og þýska landsliðsins og Hanning tekur undir orð markvarðarins.

„Við þurfum ekkert að stressa okkur þó Dagur fari. Ég myndi sjá á eftir Degi því við værum að missa góðan þjálfara en þó Dagur fari breytir það ekki stöðu okkar eða markmiðum,“ segir Bob Hanning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×