Skoðun

Halldór í ruglinu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Félagslegum íbúðum í Reykjavík hefur fjölgað á undanförnum árum. Miðað við höfðatölu býður borgin upp á allt að átta sinnum fleiri félagslegar íbúðir en nágrannasveitarfélögin.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur undanfarna daga farið í mikinn í umræðu um nýlega skýrslu Rauða krossins í Reykjavík og fullyrt að ekkert hafi gerst í að fjölga félagslegum íbúðum í höfuðborginni síðan 2010. Halldór hefur verið ansi gífuryrtur og sagt borgarstjóra bulla.

Að gefnu tilefni þá er því hér með komið á framfæri að félagslegar íbúðir í Reykjavík í september voru 2.351 talsins, þar af 1.916 almennar félagslegar íbúðir, og hefur þeim fjölgað um 109 á tveimur árum. Sé horft áratug aftur í tímann fjölgaði félagslegum íbúðum í Reykjavík um 612 í það heila. Félagslegum íbúðum hefur því ekki verið að fækka í Reykjavík þvert á það sem Halldór hefur haldið fram. Hins vegar er rétt að fram komi að íbúðunum fjölgaði ekki um eina árið 2010, en það er einmitt árið sem Sjálfstæðismenn voru síðast í meirihluta í Reykjavík.

Eflaust eru einhver tilefni fyrir oddvita Sjálfstæðismanna að gagnrýna meirihlutann fyrir seinagang en hér er ekki um slíkt tilefni að ræða. Félagslegum íbúðum hefur fjölgað og stefnumörkun borgarinnar gerir ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum.

Í stað þess að tala þessa hluti niður ætti Halldór miklu frekar að leggja meirihlutanum lið og um leið öllum borgarbúum. Eðlilegra væri að Halldór myndi sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga beina athyglinni að stöðunni á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík eru um 16 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa, í Kópavogi eru 12 íbúðir á hverja þúsund, í Hafnarfirði eru íbúðirnar 8 en hjá Seltjarnarnesi og Garðabæ eru um það bil tvær á hverja þúsund íbúa. Félagslegar íbúðir í Reykjavík eru því hlutfallslega átta sinnum fleiri en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Íbúðunum er í þokkabót að fjölga í borginni og því ljóst að það er ekki Reykjavíkurborg sem dregur lappirnar heldur sveitarfélögin í kringum Reykjavík þar sem félagar Halldórs ráða ríkjum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×