
„Laun nefndarmanna hafa ekki verið hækkuð samkvæmt nýlegum úrskurði kjararáðs og stendur ekki til,“ segir Halla Margrét Tryggvadóttir, starfsmannastjóri Akureyrarbæjar.
Fréttablaðið sendi í gær öllum stærstu sveitarfélögunum og mörgum öðrum fyrirspurn vegna hinnar umdeildu ákvörðunar kjararáðs. Mörg sveitarfélög, sem tengja laun sveitarstjórnarfulltrúa við þingfararkaupið – í mismunandi hlutföllum – hafa þegar sent svör. Málið er á dagskrá víða um land.
„Í ljósi nýlegrar ákvörðunar kjararáðs um kjör þingmanna og fleira beinir bæjarstjórn Kópavogs því til Alþingis að endurskoða lög um kjararáð. Það er eðlileg krafa að þessi ákvörðun verði endurskoðuð með tilliti til aðstæðna á vinnumarkaði,“ var bókað samhljóða í bæjarstjórn Kópavogs í gær.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur lýst því yfir að laun borgarstjórnar og borgarstjóra hækki ekki og skoraði á Alþingi að grípa inn í. „Hann hefur látið stöðva greiðslur sem annars hefðu hafist á grundvelli úrskurðarins og beðið um að undirbúin verði breyting á viðeigandi samþykktum í tíma fyrir næstu reglulegu útborgun launa,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar.

Í Árborg er þegar ákveðið að hækkun þingfararkaupsins leiði ekki til hækkunar á þóknunum kjörinna fulltrúa eða launum bæjarstjóra.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps var málinu frestað. Breyti Alþingi ekki ákvörðuninni verður brugðist við með því að lækka viðmiðunarprósentuna eða með öðrum aðgerðum, segir Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri.
Málið verður tekið fyrir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag. Það verður líka á dagskrá á morgun í Mosfellsbæ. Í Rangárþingi eystra á að samþykkja óbreyttar þóknanir og laun þar til Alþingi hefur fjallað um málið.
„Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur rætt um þessa hækkun utan dagskrár og hyggst bregðast við með einhverjum hætti ef Alþingi gerir það ekki,“ segir Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.
Í Strandabyggð verður hækkunin þó látin standa. Þar fá óbreyttir sveitarstjórnarfulltrúar sex prósent af þingfararkaupi og þrjú prósent að auki fyrir hvern fund.
Meðal sveitarfélaga sem miða við þingfararkaup en hafa enn ekki tekið afstöðu til ákvörðunar kjararáðs eru Akranes, Garður, Bolungarvík og Blönduós.
„Ekki hefur verið rætt hvort brugðist verður við nýlegri ákvörðun kjararáðs með einhverjum hætti,“ segir Eiríkur Ólafsson, fjármálastjóri Borgarbyggðar.
„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða hvernig eigi að bregðast við ákvörðun kjararáðs,“ segir Ingveldur Anna Sigurgeirsdóttir, staðgengill skrifstofustjóra Mýrdalshrepps.
„Bæjarstjórn hefur ekki rætt málið enn og því hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um viðbrögð við hækkuninni,“ segir Guðfinna B. Kristjánsdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar.
Fréttin birst fyrst í Fréttablaðinu.