Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Njarðvík 97-91 | Keflvíkingar með frábæra endurkomu

Guðmundur Steinarsson í TM-höllinni skrifar
Reggie Dupree var flottur í kvöld.
Reggie Dupree var flottur í kvöld. vísir/anton
Keflvíkingar eru komnir áfram í sextán liða úrslit Maltbikarsins í körfubolta eftir sex stiga endurkomusigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, 97-91, í Keflavík í kvöld. Var Keflavík sterkari í seinni hálfleik og slógu granna sína út úr bikarnum.

Það virtist vera skjálfti leikmönnum liðanna í upphafi. Leikmönnum gekk illa að hitta og voru þar að auki að brjóta klaufalega af sér.

Stevens lenti í villuvandræðum eftir rúmar þrjár mínútur enda kominn strax með 3 villur. Við þetta riðlaðist leikur Keflavíkinga. Það tók Njarðvík þó smá tíma að nýta sér þessa stöðu sem upp var komin.

Gestirnir gengu þó á lagið í öðrum leikhluta og juku forskot sitt jafnt og þétt með Bonneau fremstan í flokki. Bonneau setti 17 stig í fyrri hálfleik. Keflavík var í miklum vandræðum á þessum tímapunkti. Reggie Dupree hélt heimamönnum

inni í leiknum með góðri frammistöðu í fyrri hálfleik, en hann var með helming stiga Keflvíkinga eða 22 stig af 44. Njarðvík var með myndarlegt forskot að loknum fyrri hálfleik, 44-57.

Umskiptin í þriðja leikhluta voru mikil. Njarðvík hóf seinni hálfleikinn betur en Keflavík tók þá gott áhlaup og gerði sér lítið fyrir og komst yfir. Unnu Keflvíkingar upp forskot gestanna og enduðu þriðja leikhluta með fjögurra stiga forskot. Heimamenn unnu því þennan leikhluta, 29-12. Varnleikurinn var frábær og fengu þeir margar auðveldar körfur úr hraðupphlaupum. Munaði mestu um að Amin Stevens var kominn aftur á völlinn.

Lokafjórðungurinn var fjörugur. Keflavík hélt þó forystunni allan tímann en Njarðvíkingar komust nokkrum sinnum í ákjósanlega stöðu til að jafna leikinn en nýttu sér það ekki, boltinn vildi ekki ofan í.

Það fór því svo að Keflavík vann leikinn, 97-91, í hörkuleik sem hafði upp á allt að bjóða.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar unnu á góðum varnarleik og baráttunni í þriðja leikhluta. Njarðvík var komið í góða stöðu í hálfleik. Leikurinn var búinn að spilast eins vel fyrir þá og hægt var. Þegar Keflavík gerði áhlaup strax eftir fyrri hálfleikinn þá

voru gestirnir einfaldlega ekki tilbúnir. Náðu ekki að spyrna sér til baka og lentu í eltingarleik við heimamenn. Á sama tíma gekk allt upp hjá Keflavík og stemmningin var þeirra.

Bestu menn vallarins

Reggie Dupree var maður leiksins. Hann hélt Keflavík á floti í fyrri hálfleik með frábærum leik. Hann steig upp þegar Stevens lenti í villuvandræðum. Dupree endaði með tvöfalda tvennu, 28 stig og 11 fráköst, sem er frábært hjá bakverði.

Guðmundur Jónsson átti líka virkilega góðan leik. 13 stig og 10 fráköst. Hjá Njarðvík var Bonneau allt í öllu með 27 stig. Logi stóð fyrir sínu að vanda.

Tölfræði sem vakti athygli

Frákastabaráttan vakti athygli en Keflavík vann hana og tók 10 fleiri sóknarfráköstum en grannar sínir úr Njarðvík. Heimamenn tók 50 fráköst í leiknum og voru það „litlu“ mennirnir sem áttu helminginn af þeim. Heimamenn voru öflugir á

vítalínunni í síðasta leik en ekki í kvöld þegar þeir brenndu af 11 vítaskotum.

Hvað gekk illa

Mönnum gekk illa að halda sér inná vellinum. 4 leikmenn fengu 5 villur í kvöld. Stevens og Guðmundur Jónsson hjá Keflavík og Páll Kristins og Hjörtur hjá Njarðvík. Stevens var kominn í villuvandræði í byrjun leiks og hefði Njarðvík átt að nýta það betur. Páll og Hjörtur eru einmitt þeir menn sem hefðu geta nýtt sér það. Svo er kannski ósanngjarnt að setja frammistöðu liðs á herðarnar á tveimur mönnum sem eru nýbyrjaðir að æfa aftur. Njarðvík vantar sárlega leikmann inni í teig sem getur látið til sín taka. Hjörtur getur það þegar hann er kominn í betri æfingu. Það er samt dýru verði keypt þegar annar af stóru titlunum er runninn þeim úr greipum.

Guðmundur: Tók tíma að finna taktinn

Guðmundur Jónsson, leikmaður Keflavíkur, var eðlilega ánægður með sigurinn í kvöld og segir að um hörkuleik hafi verið að ræða á milli grannliðanna í Reykjanesbæ.

„Það er synd að þetta skuli vera í 32-liða úrslitunum. Það hefði verið skemmtilegra að hafa þetta nær úrslitaleiknum,“ sagði Guðmundur við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Bandaríkjamaðurinn Amir Stevens lenti í villuvandræðum snemma leiks í kvöld og voru Keflvíkingar því í basli í fyrri hálfleik.

„Það tók tíma að finna taktinn en við komum sterkir til leiks í síðari hálfleik og þá kom Stevens líka til baka sem var gott,“ sagði Guðmundur sem vildi ekki gagnrýna dómgæsluna þó svo að talsvert hafi verið flautað í leiknum.

„Þeir tóku þessa línu og héldu henni út leikinn. Það hefði vissulega mátt leyfa aðeins meira,“ sagði Guðmundur sem sagði að það hefði ekki hallað á annað liðið í dómgæslunni.

Hjörtur: Löguðum bæði vörn og sókn í seinni hálfleik

Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, var að vinna Njarðvík í annað skipti á þessu tímabili. Hann sagði sigurinn frábæran en að það hafi verið erfitt að missa Stevens í upphafi leiksins vegna villuvandræða.

„Við vorum ragir og ekki nægilega kraftmiklir í fyrri hálfleik. En við löguðum bæði vörn og sókn í þeim síðari,“ sagði Hjörtur sem lofaði frammistöðu Reggie Dupree, sem og annarra leikmanna í Keflavík.

„Hann lagði sig fram eins og allir sem komu inn á. Þeir voru samstíga um að gera þetta saman,“ sagði Hjörtur sem var ánægður með að dómgæslan hafi ekki ráðið úrslitum í leiknum.

„Leikmenn eiga að fá að klára svona leiki,“ sagði Hjörtur sem sagðist vilja fá heimaleik í næstu umferð Maltbikarsins.

Daníel: Ömurlegt að tapa þessum leik

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var fámáll eftir tap liðins gegn Keflavík í kvöld.

„Það er bara ömurlegt að tapa þessum leik,“ sagði Daníel. Njarðvík var með fínt forskot í hálfleik, við spurðum Daníel hvað hafi gerst í þriðja leikhluta?

„Við stjórnuðum leiknum fyrstu 20 mínúturnar en það eru seinni 20 mínúturnar sem gilda,“ sagði Daníel og bætti við: „Við vissum þeir kæmu grimmir inní seinni hálfleik á sínum heimavelli og þeir ná stjórninni á leiknum fljótlega í þriðjaleikhluta“.

Daníel sagði að sínir menn hefðu gefið þessu séns en það hefði ekki dugað til. Spurður út í dómara leiksins hafði Daníel þetta að segja „Mér fannst þetta alveg í lagi en þeir hefðu mátt halda áfram á sömu braut í seinni hálfleik. Þá breyttist þetta en stundum er þetta svona,“ sagði Daníel.

Njarðvík lét annan af erlendu leikmönnum sínum fara fyrir nokkrum dögum, er við spurðum Daníel hvort von væri á öðrum leikmann sagði hann: „Já, en það næst líklegast ekki fyrir næsta leik“.

Logi: Það lið sem á síðasta áhlaupið nær oft að vinna

Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur, stóð fyrir sínu í liði Njarðvíkinga í kvöld.

„Við komum útúr hálfleiknum frekar góðir, bættum aðeins við forskotið. En svo kom áhlaup frá Keflavík sem við stóðumst ekki“ sagði Logi um leik sinna manna og bætti við „í svona leikjum skiptast liðin á að gera áhlaup og það lið sem á síðasta áhlaupið nær oft að vinna“ .

Voru leikmenn værukærir í hálfleik fyrst að liðið var með gott forskot og Stevens í villuvandræðum?  „Ég veit það ekki, mér fannst við spila ágætlega á hann. Það voru aðrir sem voru að spila ágætlega þegar Stevens var útaf og þeir héldu því áfram þótt að hann væri kominn inná“ sagði Logi.

„Keflavík er með góða leikmenn og liðið stendur ekki endilega og fellur með Stevens. Ég held að við höfum ekki vanmetið Keflavík þannig að þeir gætu ekkert án hans,“ sagði Logi.

Spurður út í dómara leiksins og hvort þeir hefðu mátt leyfa meira í leiknum hafi Logi þetta að segja „Jú auðvitað á að leyfa leiknum aðeins að flæða þegar þeir vita að það er harka. Leikurinn nær ekkert að ganga ef það er flautað í hvert skipti en það var flautað á báða bóga og svona er þetta bara. Mér fannst jafnt dæmt og dómararnir ágætir í kvöld“.

Loga fannst bæði súrt að spila svona stóran leik í 32-liða úrslitum eins  og það er gaman að fá svona alvöru leik snemma í keppninni. „Stundum hefur maður spilað í bikarnum og ekki fengið svona leik og svo bara dottið út en við nutum þess að spila hérna í dag,“ sagði Logi Gunnarsson.

Textalýsingin: Keflavík - Njarðvík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×