Skoðun

"Computer says no“

Ólafur Rúnarsson skrifar
Nú hafa tónlistarskólakennarar verið samningslausir í meira en ár og ekkert bólar á því að nýr samningur sé á næsta leiti.

Eftir fimm vikna verkfall árið 2014 var skrifað undir samning til eins árs, einhvers konar vopnahléssamning, og áttu viðræður að halda áfram samkvæmt viðræðuplani. Ekkert hefur því miður miðað í þessum viðræðum við sveitarfélögin.

Hampa okkur á tyllidögum

En við hverja erum við tónlistarskólakennarar að semja? Eru það ekki hinir kjörnu fulltrúar sem við kjósum á fjögurra ára fresti? Þeir sömu og hampa okkur á tyllidögum þegar við mætum á viðburði með söngvarann, lúðrasveitina, kammersveitina o.s.frv. í okkar samfélögum. Eða erum við að semja við óhagganlegt „kerfi embættismanna“, lesist Samband íslenskra sveitarfélaga?

Er það ekki hentugt fyrir hina kjörnu fulltrúa að vísa ábyrgðinni yfir á eitthvert samband sem tekur að sér að vera vondi kallinn og snúa sér svo að þeim sem kusu þá og segjast hafa skilning á kröfum þeirra? Til hvers var þá verið að færa þessi málefni yfir í nærsamfélagið á sveitarstjórnarstigi? Eru hinir kjörnu fulltrúar okkar ekki kosnir til þess að útdeila og forgangsraða í þágu nærsamfélagsins?

Ekkert sem þeir geta gert

Á þessu ári hafa bæði Bretar og Bandaríkjamenn kosið að hafna hinu andlitslausa embættismannakerfi. Brexit og kosning DonaldsTrump er kall á breytingar og lýsir þreytu á kerfi sem fríar kjörna fulltrúa ábyrgð. Svörin sem við fáum frá hinum kjörnu fulltrúum eru á þá leið að það sé ekkert sem þeir geti gert. Erum við að stefna í sömu átt, er þetta framtíðin? Ætla hinir kjörnu fulltrúar okkar að skýla sér á bak við frasann „computer says no“?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×