Enski boltinn

Cech: Man Utd þarf að vinna til að eiga möguleika á titlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cech lék lengi undir stjórn José Mourinho, knattspyrnustjóra Man Utd.
Cech lék lengi undir stjórn José Mourinho, knattspyrnustjóra Man Utd. vísir/getty
Petr Cech, markvörður Arsenal, segir að Manchester United verði að vinna leik liðanna á morgun til að eiga möguleika á Englandsmeistaratitlinum.

Man Utd er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 18 stig, sex stigum á eftir Arsenal sem er í því fjórða. Skytturnar eru tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool og fara því, a.m.k. tímabundið, á toppinn með sigri á morgun.

„Þetta er sex stiga leikur. Við gerðum jafntefli við Spurs og það er smá bil á milli okkar og Liverpool. Við þurfum að hanga í skottinu á þeim og vera tilbúnir að nýta okkur það þegar þeir tapa stigum,“ sagði Cech.

„Man Utd er á eftir okkur svo það væri í fyrsta lagi gott að skilja þá eftir fyrir neðan okkur og í öðru lagi að halda okkur í námunda við toppliðin.“

Cech segir klárt að Man Utd þurfi sigur á morgun til að halda í vonina um 21. Englandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.

„Ef Man Utd ætlar að eiga möguleika á að vinna titilinn þurfa þeir þrjú stig,“ sagði Cech.

„Þetta er alltaf stórleikur, sama í hvaða stöðu liðin eru í. En núna gæti sigur reynst mjög þýðingarmikill,“ bætti Tékkinn reyndi við.

Leikur Man Utd og Arsenal hefst klukkan 12:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Upphitun hefst hálftíma fyrir leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×