Enski boltinn

Klopp: Framtíð Coutinho liggur hjá Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er vongóður um að halda Coutinho.
Jürgen Klopp er vongóður um að halda Coutinho. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, segist viss um að framtíð brasilíska framherjans Philippe Coutinho liggi hjá Liverpool þrátt fyrir að orðrómur um áhuga Barcelona á leikmanninum sé farinn af stað á ný.

Coutinho er búinn að spila frábærlega á leiktíðinni fyrir Liverpool sem er á toppnum í fyrsta sinn í rúm tvö ár eða síðan liðið henti frá sér Englandsmeistaratitlinum á vormánuðum 2014.

Ekki nóg með að Coutinho sé að spila eins og kóngur í ensku úrvalsdeildinni þá skoraði hann fallegt mark með brasilíska landsliðinu á móti Argentínu í landsleikjavikunni. Ekki var það til að draga úr áhuga stórliða á framherjanum.

„Þessa stundina hef ég ekki áhyggjur af neinu. Leikmennirnir eru ánægðir hérna og það er okkar starf að halda stöðunni þannig,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

„Mín skoðun er að Coutinho líði vel hérna. Við vonumst allir til og teljum að framtíð hans liggi hjá Liverpool. Við viljum búa til þannig andrúmsloft að enginn vilji fara. Um það snýst þetta.“

„Ef það er eitthvað félag sem getur borgað tvöfalt á við okkur þá mun ég sjálfur fara með leikmanninn þangað. Ég get ekki látið fjölskyldumenn hafna þannig tilboðum þegar þeir þurfa að sjá um konu og börn. Ég veit samt ekki um mörg félög sem hafa bolmagn til að gera það,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×