Innlent

Engin lausn í sjónmáli í kjaradeilu kennara

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara segist ekkert geta sagt eins og er um hvernig viðræðurnar gangi.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara segist ekkert geta sagt eins og er um hvernig viðræðurnar gangi. Vísir/Ernir
Fundur samninganefndar Félags grunnskólakennara og samninganefndar sambands íslenskra sveitarfélaga hófst í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 11 í dag.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara segist ekkert geta sagt eins og er um hvernig viðræðurnar gangi.

„Það er ekkert komið á þann stað að við séum farin að tala um það hvort þetta nálgist eða hvernig þetta gangi. Þetta samtal er í gangi og það er vinna í gangi. Það er það sem við tölum um á þessum tíma,“ segir Ólafur í samtali við Vísi.

„Vinnan verður örugglega langt fram á kvöld. Hvort sem það verður með sveitarfélögum eða ekki. Stundum er það bara þannig að það kemur eitthvað út úr svona fundum sem þarf að fara til baka og vinna í.“

Mikil ólga er í stéttinni og komu um þúsund kennarar saman til samstöðufundar í Háskólabíó síðdegis á þriðjudag þar sem þeir kröfðust bættra kjara. Viðmælendur fréttastofu töldu eðlilegt að laun þeirra væru á bilinu 600-700 þúsund.

“Við vorum öll sammála um það, við og sveitarfélögin og sáttasemjari að við hefðum ekki langan tíma. Við höfum gefið okkur að þetta væru einhverjar 2-3 vikur sem við hefðum til að ná þessu saman.“

Ólafur segir enga ástæðu fyrir kennara til að verða bjartsýnir eins og staðan er núna.

„Fólk hefur enga ástæðu til að vera bjartsýnna meðan það eru engar fréttir um það hvort þetta gengur áfram eða afturábak eða kjurt eða hvað. Það hefur engin breyting orðið gagnvart fólkinu þannig að það hefur enga ástæðu til að verða bjartsýnt eða ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×